Kristinn þáði boð Stella Azzurra

Kristinn Pálsson var valinn besti ungi leikmaðurinn á alþjóðlegu U19-móti …
Kristinn Pálsson var valinn besti ungi leikmaðurinn á alþjóðlegu U19-móti í Lissone. Ljósmynd/KKÍ

Kristinn Pálsson, 16 ára Njarðvíkingur, hefur ákveðið að þiggja boð um að ganga til liðs við unglingaliðið Stella Azzurra í Róm á Ítalíu. Hann mun æfa og leika með liðinu auk þess að stunda þar nám.

Þetta kemur fram á vef KKÍ. Kristinn tók þátt í alþjóðlegu móti með Stella Azzurra um síðastliðna páska eftir að hafa æft með því í tæpa viku. Hann var valinn besti ungi leikmaður mótsins og í kjölfarið bauðst honum svo að leika með liðinu næsta vetur.

Hjá Stella Azzurra er boðið upp á fyrsta flokks aðstöðu fyrir unga körfuknattleiksmenn og námið er alþjóðlegt og myndi gera Kristni kleyft að sækja um í hvaða bandaríska háskóla sem er að því loknu.

Kristinn á ekki langt að sækja hæfileikana því faðir hans er Páll Kristinsson, fyrrverandi landsliðsmaður og leikmaður Njarðvíkur, og móðir hans er Pálína Gunnarsdóttir sem einnig lét að sér kveða í körfuboltanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka