Matthías Orri áfram hjá ÍR

Matthías Orri Sigurðarson verður áfram í herbúðum ÍR.
Matthías Orri Sigurðarson verður áfram í herbúðum ÍR. mbl.is/Árni Sæberg

ÍR-ingar sömdu í dag við Matthías Orra Sigurðarson um að leika með liði félagsins í úrvalsdeild karla á körfuknattleik á næstu leiktíð. Matthías Orri sem var á mála hjá ÍR í vetur var einn af eftirtektarverðustu leikmönnum Íslandsmótsins í vetur og því mikill styrkur fyrir ÍR-inga að halda honum í sínum röðum.

Matthías Orri samdi til eins árs við ÍR í dag, en þetta staðfesti körfuknattleiksdeild ÍR við mbl.is.

Matthías skoraði að meðaltali 16,8 stig í leik í Dominosdeild karla í vetur, var með 6,1 frákast að meðaltali og 6,7 stoðsendingar. Hann er aðeins 19 ára en verður tvítugur í haust. Matthías Orri er alinn upp í KR en söðlaði um síðasta vetur þegar hann gekk til liðs við ÍR þar sem fór á kostum.

ÍR hefur enn ekki ráðið þjálfara meistaraflokks karla fyrir næstu leiktíð, en Örvar Þór Kristjánsson lét af störfum fyrr í vor eftir að hafa stýrt liðinu í eitt ár. Undir stjórn Örvars endaði ÍR í 9. sæti úrvalsdeildarinnar, með jafnmörg stig og Snæfell sem hafnaði í 8. sæti og því missti ÍR rétt svo af sæti í úrslitakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert