Tvíframlengt í endurkomu taplausra KR-inga

Pavel Ermolinskij og félagar í KR fengu ÍR í heimsókn …
Pavel Ermolinskij og félagar í KR fengu ÍR í heimsókn í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslandsmeistarar KR eru enn ósigraðir á toppi Dominos-deildar karla í körfuknattleik, en þeir þurftu svo sannarlega að hafa fyrir sigrinum þegar ÍR kom í heimsókn í kvöld. ÍR-ingar voru yfir allan tímann í venjulegum leiktíma en KR tryggði framlengingu. Það þurfti aðra slíka til að útkljá rimmuna og þegar yfir lauk voru það KR-ingar sem tóku stigin, lokatölur 113:110 eftir tvíframlengdan leik.

Fyrsti leikhluti var draumur í dós fyrir ÍR-inga. Þeir voru gríðarlega hreyfanlegir í sókninni og rammvígir í vörn sem virtist koma illa við leikmenn KR, sem voru ískaldir í sínum skotum. Nánast ekkert vildi niður. ÍR-ingar voru mjög sanngjarnt yfir eftir fyrsta hluta, 28:15.

KR-ingar bættu sinn leik í upphafi annars hluta, enda gat leikur þeirra bara þróast til hins betra. ÍR-ingar héldu hins vegar haus með Tray Hampton fremstan meðal jafningja, en ábyrgðin dreifðist annars mjög vel á milli lykilmanna ÍR-inga sem skipti sköpum á meðan röndóttir kollegar þeirra voru í vandræðum. ÍR hélt haus, bætti frekar í ef eitthvað var og hafði nítján stiga forskot í hálfleik, 58:39, en ljóst að prófraunin yrði meiri eftir hlé.

Það gekk sannarlega eftir. Það virtust ekki vera sömu KR-ingar á vellinum og fyrir hlé. Það var allt annað að sjá liðið bæði í vörn og sókn og eftir sjö mínútna leik í þriðja leikhluta var KR á 23:4 kafla. Það var of mikið fyrir ÍR-inga og KR jafnaði metin án þess þó að komast yfir og seiglan gaf ÍR fimm stiga forskot fyrir fjórða og síðasta leikhluta, 72:67.

Fjórði leikhluti var æsispennandi. KR-ingar sóttu hart að Breiðhyltingum sem stóðust mótlætið lengi vel, en Trey Hampton var haldið vel í skefjum sem munaði um minna. Þegar mínúta var eftir var ÍR þremur stigum yfir en Brynjar Þór Björnsson jafnaði með þriggja stiga körfu 25 sekúndum fyrir leikslok og tryggði KR framlengingu.

KR-ingar komust yfir í fyrsta sinn í leiknum í framlengingunni, en jafnræðið var þó gríðarlegt. Enn var jafnt að henni lokinni, 99:99, og því þurfti að framlengja á ný.

Ekki var jafnræðið minna í annarri framlengingu eins og lesa má í lýsingunni hér að neðan, en að henni lokinni voru það KR-ingar sem voru sterkari og fóru því með sigur af hólmi eftir vægast sagt magnaða rimmu. Lokatölur 113:110.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld. 

50. Leik lokið, lokatölur 113:110. Mattías Orri skoraði síðustu körfu leiksins. Mögnuðum leik lokið!! Pavel stigahæstur hjá KR með 24 stig en hjá ÍR skoraði Matthías 29.

50. 113:108 - Pavel fékk tvö víti. Seinna fór niður. Fimm stig og 20 sekúndur eftir. Craion vann boltann og fer svo á vítalínuna.

50. 112:108 - Þórir fékk tvö víti fyrir KR, setti seinna niður. ÍR á boltann og mínúta eftir....en missir hann! Darri setur niður magnaða körfu!

49: 109:108 - Ég á ekki orð. Þvílíkur leikur! Matti setti niður fyrir ÍR en Helgi svarar með þrist og kemur KR yfir. 1:06 á klukkunni!

48. 106:106 - Pavel setur tvö víti en Sveinbjörn jafnar. Helgi klikkar og ÍR í sókn!

48. 104:104 - Erum við ekki örugglega í framlengingu tvö? Matthías Orri svoleiðis svellkaldur sullar niður þrist eins og að drekka vatn. Jafnt!

47. 104:101 - Karfa góð og víti hjá Pavel. Þriggja stiga munur núna.

46. 101:101 - Glæsileg vörn hjá ÍR! Kristján jafnar metin á ný, 101:101. Fjórir lykilmenn KR eru í villuvandræðum. Hvað gerir ÍR án Hampton?

Fyrstu framlengingu lokið, staðan er 99:99. Þvílíkur leikur! Brynjar reyndi þrist en klikkaði. Við fáum aðra framlengingu.

45. 99:99 - Matthías Orri á vítalínuna fyrir ÍR og setur bæði niður þrátt fyrir baul áhorfenda. Jafnt! 9 sekúndur eftir!

45. 99:97 - Pavel setti annað niður en klúðrar hinu. ÍR í sókn!

45. 98:97 - Sveinbjörn stelur boltanum og skorar. Eitt stig! Tuttugu sekúndur eftir og Pavel fer á vítalínuna fyrir KR. Bæði Hampton og Ragnar með fimm villur hjá ÍR.

44. 98:95 - Matthías minnkar muninn fyrir ÍR. Brynjar reyndi þrist af löngu löngu færi fyrir KR en klikkaði. KR vinnur hins vegar boltann aftur eftir misheppnaða sendingu ÍR.

44. 98:93 - Brynjar setur niður tvö víti fyrir KR og munurinn er fimm stig. 1:54 á klukkunni.

43. 96:93 - Rándýrt þetta! Helgi klikkar á þrist, Craion eins og tröll hirðir frákastið og fær körfu góða og víti! Sem hann reyndar klúðrar. Hampton kominn með sína fimmtu villu hjá ÍR. Situr á bekknum með hendur á höfði sér.

42. 92:91. - Sveinbjörn með stáltaugar á vítalínunni og setur niður bæði fyrir ÍR. 

41. 88:87 - KR er nú yfir í fyrsta sinn í leiknum! Þórir með flotta körfu. Hann er búinn að vera góður þessi drengur. Í kjölfarið fékk Hampton tvö víti en klúðraði því seinna.

40. Venjulegum leiktíma lokið, staðan er 86:86. Matthías Orri bar upp boltann fyrir ÍR en Þórir varðist vel. Skot Matta klukkaði og flautuþristur hjá Þóri sömuleiðis. Við fáum framlengingu!

40. 86:86 - ÞVÍLÍKT OG ANNAÐ EINS! Brynjar sullar niður þrist eins og ekkert sé eins sjálfsagt á svona stundu og jafnar leikinn! 25 sekúndur eftir!!

39. 83:86 - Vává! Helgi setur annan þrist, 1:10 á klukkunni! Þriggja stiga munur!! Brynjar gengur að stúkunni og öskrar menn á fætur!

39. 80:86 - Helgi Már setur þrist. Kominn með fimmtán stig. Þetta verður ekki meira spennandi! - Nú lenti Craion og auglýsingaskilti fyrir framan varamannabekk ÍR og þar liggja nokkrir í valnum!

38. 77:86 - Dómarar leiksins fengu orð í eyra og þau bæði má segja eftir að áhorfendur hundskömmuðu þá. Þar sló KR-hjartað. Hamid Dicko var að setja niður tvö víti fyrir ÍR og munurinn níu stig. 2:10 á klukkunni.

37. 77:84 - ÍR-ingar eru ekkert af baki dottnir. Sveinbjörn setur niður sniðskot og í kjölfarið klikkar þristur hjá Brynjari. Æsispenna!

35. 75:78 - Hampton er týndur hjá ÍR, algjörlega. Brynjar var að sulla niður þrist fyrir KR og munurinn kominn niður í þrjú stig á ný!

33. 70:76 Helgi Már með þrist fyrir KR. Munurinn sex stig og 6:40 á klukkunni. Spenna.

32. 67:76 - Hvorugt liðið fer sér að engu óðslega í upphafi fjórða hluta. Þetta verður rafmagnað, það er ljóst!

30. Þriðja leikhluta lokið, staðan er 67:72. Áhlaupið kom í þessum leikhluta eins og búist var við og róðurinn var ansi erfiður fyrir ÍR. KR jafnaði metin án þess þó að komast yfir, og það er ljós í myrkrinu hvað ÍR-ingar hengdu ekki haus heldur héldu áfram og hafa fimm stiga forskot.

Hampton hefur hins vegar alveg staðnað hjá þeim, er fastur í tuttugu stigunum. Hjá KR er Craion kominn með sextán.

28. 65:69 - ÍR-ingar eru ekki alveg dauðir úr öllum æðum þrátt fyrir mikið mótlæti í þessum leikhluta. En meðbyrinn er KR, það er alveg ljóst. 

26. 62:62 - Þórir setur þrist og jafnar leikinn fyrir KR!! Þeir allra hörðustu standa upp í stúkunni. Nú eru það ÍR-ingarnir sem eru ráðalausir.

25. 59:62 - Eru þetta sömu KR-ingar og fyrir hlé? Það er ALLT annað að sjá til þeirra bæði í vörn og sókn. Meistarabragur á þessu - það er ekki hægt að segja annað. Þristur hjá Brynjari undirstrikar það og munurinn kominn niður í þrjú stig!

24. 54:62 - KR er á 11:2 kafla núna. Þriðji leikhluti er þeirra leikhluti. Craion er vaknaður með frábært blokk á Sveinbjörn!

23. 52:60 Karfa góð og víti niður hjá Pavel. Munurinn kominn í tíu stig og áhorfendur farnir að syngja...og þarna setur Craion niður sniðskot og minnkar muninn enn frekar. Nú reynir á úr hverju ÍR-ingar eru gerðir. 

22. 47:60 - ÍR-ingar virðast langt frá því að vera að guggna eins og menn töldu hér í blaðamannastúkunni í hálfleik! Hampton fyrst með frábæra blokk gegn Craion og Matthías Orri sullar niður þrist....en KR-ingar eru seigir. Brynjar og Helgi báðir búnir að setja þrista og rífa áhorfendur með sér.

Hálfleikur, staðan er 39:55. ÍR-ingar eiga svo sannarlega forskotið skilið. Þeir hafa verið funheitir í skotum sínum og spilað þétta vörn. Trey Hampton er með átján stig og er stigahæstur á vellinum. Matthías Orri, Kristján Pétur og Sveinbjörn eru allir með ellefu stig. Talandi um að dreifa álaginu!

Hjá KR eru flestir ef ekki allir lykilmenn að klikka. Craion og Pavel eru báðir með tíu stig en hvað þeir eru búnir að klikka á mörgum skotum er áhyggjuefni. Helgi Már kláraði leikhlutann með flottum þrist. Gott að fara inn í hálfleikinn eftir einn slíkan, en liðið er þó sextán stigum undir.

19. 37:49 - Áhorfendur sem eru á bandi KR eru ekki sáttir þó þeir séu aðeins að vakna síðustu mínúturnar. Ég heyrði einn hérna fyrir neðan mig spurja sessunaut sinn hvort ÍR yrði fyrsta liðið til að skella KR í vetur? Ef þeir halda dampi eftir hlé er það aldrei að vita!

17. 31:47 - Já sko, það eru ÍR-ingar í stúkunni líka. Þeir taka við sér um leið og Hampton setur niður sitt átjánda stig af vítalínunni. Nær hann upp í 40 eins og gegn Þór á mánudag?...Þarna datt þristur hjá KR, Brynjar setur hann. - En Kristján svarar með öðrum hinum megin! Frábær leikur!!

16. 28:40 - Matthías Orri setur niður fallegan þrist fyrir ÍR sem enn hefur tólf stiga forskot þrátt fyrir að leikur KR hafi batnað til muna. Skotnýtingin hefur hins vegar ekki enn batnað nægilega vel hjá heimamönnum og þó sóknarleikurinn fljóti ekki jafn vel hjá ÍR og í fyrsta hluta eru skytturnar enn funheitar. Svo ekki sé minnst á Hampton!

12. 26:35 - Betra frá KR-ingum núna en það gat líka varla versnað. Stigaskorun ÍR-inga dreifist vel um liðið á meðan lykilmenn eru ekki að hitta vel hjá KR. Að Craion komist í gang er lykillinn hjá KR því Hampton er á góðu skriði...Og þristur frá Helga Má sem kveikir í stúkunni! 

10. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 15:28. Það hefur einfaldlega allt gengið upp hjá ÍR í þessum fyrsta leikhluta og staðan gæti vart verið betri fyrir þá. KR-ingar eru einfaldlega á hælunum. Kristján Pétur er stigahæstur á vellinum með átta stig en hjá KR er Finnur með sex. 

8. 12:26 - Ég talaði um einvígi Hampton og Craion hér áðan og enn sem komið er hefur bláklæddur Hampton haft betur á öllum vígstöðum. Hann er kominn með sjö stig og er stigahæstur en Craion er enn ekki kominn á blað. Sest á bekkinn og virkar pirraður.

7. 10:22 - Stórkostleg byrjun hjá ÍR-ingum!! Boltinn gengur hratt milli manna og skytturnar eru funheitar fyrir utan. Kristján Pétur búinn að setja tvo þrista. KR-ingar í vandræðum og Finnur tók snemma leikhlé....Og Sveinbjörn með þrist!!

5. 7:12 - Um leið og ég setti inn síðustu færslu kom meira fjör. Tveir þristar hjá ÍR-ingum síðan þá en stig KR-inga koma úr teignum... Þriðji þristurinn, Sveinbjörn með einn risa. Góð byrjun er lykillinn fyrir ÍR því úthaldið er án efa meira í meisturunum.

3. 3:0 - Róleg byrjun, það verður ekki annað sagt. En það verður gaman að sjá slaginn milli Hampton og Craion í þessum leik. Hampton er þegar kominn með risa blokk gegn landa sínum strax í upphafi leiks, en hann skoraði einmitt fyrstu stig ÍR og fyrstu stig leiksins.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Upphitun í fullum gangi hjá báðum liðum. Ekkert nýtt þar. Kaffið einnig gott. Fögnum því.

0. ÍR-ingum hefur gengið illa síðustu misseri, ekki unnið leik síðan 20. nóvember og tapað nú fimm leikjum í röð; síðast gegn Þór frá Þorlákshöfn á mánudagskvöldið sem var hörkuleikur. Af þessum fimm leikjum hefur liðið hins vegar tvívegis tapað með einu stigi, svo það hefur oft verið mjótt á munum.

KR-vélin mallar hins vegar vel. Vann Njarðvík á útivelli í síðasta leik sínum, 86:76, en þegar liðið mætti ÍR í haust voru lokatölur 93:86 fyrir meisturunum.

0. Góða kvöldið! Mbl.is heilsar úr Vesturbænum þar sem ósigraðir Íslandsmeistararnir fá Breiðhyltinga í heimsókn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert