Carmen Tyson-Thomas, leikmaður kvennaliðs Keflavíkur í körfuknattleik, meiddist illa í sigri liðsins gegn Val á laugardag. Lenti hún í samstuði við Taleya Mayberry, leikmann Vals, sem fékk á sig dæmda óíþróttamannslega villu fyrir vikið.
Við nánari skoðun í gær kom í ljós að Thomas er rifbeinsbrotin og verður hún frá næstu fjórar vikurnar, en frá þessu greindi Karfan.is. Ljóst er að um gríðarlega blóðtöku er að ræða fyrir Keflavík en Thomas hefur sett niður 26 stig og er með tólf fráköst að meðaltali í vetur. Hún missir t.d. af úrslitaleik Powerade-bikarsins þar sem Keflavík etur kappi við Grindavík. peturhreins@mbl.is