Benedikt hættur með Þór

Benedikt Guðmundsson.
Benedikt Guðmundsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Þórsarar í Þorlákshöfn staðfestu í kvöld að Benedikt Guðmundsson mundi láta af störfum sem þjálfari karlaliðs félagsins í körfuknattleiks en hann hefur stýrt liðinu í fimm ár ásamt því að þjálfa yngri flokka hjá Þór.

Benedikt sagði við mbl.is á dögunum að hann hefði ekkert heyrt frá Þórsurum og vissi ekki hvort hann yrði áfram hjá félaginu. Liðið vann sig upp í úrvalsdeildina á fyrsta ári hans og lék síðan til úrslita við Grindavík um Íslandsmeistaratitilinn vorið 2012.

Á Facebook-síðu Þórs var eftirfarandi birt í kvöld:

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs í körfuknattleik, mun láta af störfum hjá félaginu í vor. Benedikt hefur verið farsæll þjálfari hjá Þór en hann er búinn að starfa í 5 ár sem þjálfari meistaraflokks og yngri flokka.

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur verið afar ánægð með störf Benedikts en hann byrjaði með meistaraflokkslið Þórs í 1. deild árið 2010 og enduðu þeir þá leiktíð sem deildarmeistarar með 17 sigra af 18. Leiðin lá í úrvalsdeild þar sem liðið kom öllum að óvörum og lék til úrslita á móti Grindavík. Síðan hefur liðið fest sig í sessi sem eitt af betri liðunum í úrvalsdeild.

Körfuknattleiksdeild Þórs óskar Benedikt velfarnaðar í framtíðinni og þakkar frábær störf í þágu körfuknattleiksdeildarinnar og mjög gott samstarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert