Íslandsmeistaratitillinn er í augsýn

Pálína Gunnlaugsdóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Lele Hardy og Lovísa Falsdóttir með …
Pálína Gunnlaugsdóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Lele Hardy og Lovísa Falsdóttir með Íslandsmeistarabikarinn. mbl.is/Andri Yrkill

Úrslitakeppni Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik hefst á morgun, miðvikudag, en fjögur efstu lið deildarinnar eigast þar við í innbyrðis viðureignum og berjast um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

Ríkjandi Íslands- og deildarmeistarar Snæfells mæta bikarmeisturum Grindavíkur, sem tryggði sér fjórða sæti deildarinnar í síðustu umferðinni eftir harða baráttu við Val. Hitt einvígið er á milli Keflavíkur, sem endaði í öðru sæti deildarinnar, og Hauka sem tóku þriðja sætið. Þrjá sigra þarf til að komast í sjálft úrslitaeinvígið.

Lele Hardy hefur verið frábær með Haukum í vetur, ekki …
Lele Hardy hefur verið frábær með Haukum í vetur, ekki síður en Kristen McCarthy hjá Snæfelli sem hér reynir að verjast henni. mbl.is/Ómar

Snæfell - Grindavík: Titlaliðin tvö mætast

Ríkjandi meistarar Snæfells töpuðu einungis þremur leikjum í deildinni í vetur. Eins og greint var frá hér á mbl.is í dag þá voru þrír leikmenn liðsins valdir í úrvalslið síðari hluta deildarinnar og þjálfarinn, Ingi Þór Steinþórsson, valinn sá besti. Hann stýrði liðinu til fyrsta Íslandsmeistaratitils þess í fyrra.

Kristen McCarthy, sem valin var besti leikmaður síðari hlutans, skilaði þriðja mesta framlagi allra leikmanna í deildinni í vetur. Hún var með 27,1 stig, 13,1 frákast og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Fyrirliðinn Hildur Sigurðardóttir er efst á lista yfir stoðsendingar, með rúmlega sex að meðaltali í leik.

Grindavík vann 17 af 28 leikjum sínum í deildinni í vetur og hafði betur gegn Val í hreinum úrslitaleik um fjórða sætið og þátttökurétt í úrslitakeppninni. María Ben Erlingsdóttir var þeirra stigahæst með 12,4 stig að meðaltali í leik en hvað fráköstin varðar er Petrúnella Sigurðardóttir með sjö slík að meðaltali.

Grindavík stóð uppi sem bikarmeistari í vetur eftir úrslitaleik gegn Keflavík. Liðið hefur einu sinni orðið Íslandsmeistari og var það árið 1997 undir stjórn Sigurðar Ellerts Magnússonar.

Innbyrðis viðureignir Snæfells og Grindavíkur í deildinni í vetur:
Grindavík - Snæfell 52:68
Snæfell - Grindavík 80:56
Snæfell - Grindavík 101:76
Grindavík - Snæfell 60:88

Snæfell 4:0 Grindavík. Fyrsti leikur liðanna fer fram í Stykkishólmi á morgun, miðvikudag.

Carmen Tyson-Thomas, Keflavík og Kristina King, Grindavík, verða í stórum …
Carmen Tyson-Thomas, Keflavík og Kristina King, Grindavík, verða í stórum hlutverkum. mbl.is/Ómar

Keflavík - Haukar: Heimaleikjarétturinn vegur þungt

Keflavík endaði í öðru sæti deildarinnar, sex stigum á eftir Snæfelli. Liðið hefur oftast allra orðið Íslandsmeistari síðan úrslitakeppnin var tekin upp árið 1993 eða ellefu sinnum - þar af fimm sinnum undir stjórn Sigurðar Ingimundarsonar, núverandi þjálfara, og síðast fyrir tveimur árum. Liðið hefur komist í úrslitakeppnina í öll 23 skiptin síðan hún var tekin upp.

Ef litið er til leikmanna var Carmen Tyson-Thomas þriðja stigahæst í deildinni með tæp 26 stig, 12,4 fráköst og 4 stoðsendingar að meðaltali. Hún var með næstmesta framlag allra leikmanna deildarinnar. Þá var Sara Rún Hinriksdóttir valin í úrvalslið síðari hluta deildarinnar.

Haukar enduðu í þriðja sæti með tveimur stigum meira en Grindavík. Liðið varð síðast Íslandsmeistari árið 2009, en vann þar á undan tvö ár í röð, 2006 og 2007 undir stjórn Ágústs Björgvinssonar.

Lele Hardy hefur verið nánast í sérflokki í deildinni í vetur, er bæði stigahæst og með flest fráköst auk þess sem hún er með mesta framlag allra leikmanna deildarinnar. Hardy skoraði að meðaltali 28,4 stig og tók 20,3 fráköst í leik.

Leikir liðanna í vetur hafa verið jafnir eins og sjá má hér að neðan og hafa liðin skipt með sér sigrunum. Allir hafa þeir unnist á heimavelli, og því má velta vöngum yfir því hvort forskot Keflavíkur sé falið í heimaleikjaréttinum.

Innbyrðis viðureignir Keflavíkur og Hauka í deildinni í vetur:
Haukar - Keflavík 74:72
Keflavík - Haukar 73:60
Keflavík - Haukar 90:63
Haukar - Keflavík 85:75

Keflavík 2:2 Haukar. Fyrsti leikur liðanna fer fram í Keflavík á morgun, miðvikudag.

Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir, Keflavík, og Petrúnella Skúladóttir, Grindavík, eigast við …
Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir, Keflavík, og Petrúnella Skúladóttir, Grindavík, eigast við í bikarúrslitaleiknum í vetur. Þar fagnaði Grindavík sigri. mbl.is/Ómar

Allir þjálfa báða meistaraflokka sinna félaga

Það er athyglisvert að sjá að allir þjálfarar liðanna fjögurra eru einnig þjálfarar meistaraflokks karla hjá sínum félögum. Þrír þeirra komust þar að auki í úrslitakeppnina þeim megin og stendur þar einn eftir, Ívar Ásgrímsson hjá Haukum. Hann er meðal annars á ferðinni í kvöld og mætir með sína stráka á Sauðárkrók þar sem mótherjinn er Tindastóll í undanúrslitunum.

Ingi Þór hjá Snæfelli var sá eini sem ekki komst í úrslitakeppnina karlamegin, en liðið endaði þar í níunda sæti. Sverrir Þór Sverrisson, Grindavík, og Sigurður Ingimundarson, Keflavík, eru báðir úr leik með sínum liðum karlamegin.

Sigurður er þeirra sigursælastur en hann hefur hampað titlinum fimm sinnum og hefur enginn afrekað betur. Það var árin 1993, 1994, 1996, 2004 og 2013, alla með Keflavík sem alls hefur orðið meistari ellefu sinnum. Sverrir Þór á tvo meistaratitla að baki, árin 2005 með Keflavík og 2012 með Njarðvík. Ingi Þór stýrði Snæfelli til síns fyrsta titils í fyrra en Ívar á engan meistaratitil að baki.

Úrslitakeppnin hefst á morgun sem fyrr segir þar sem Snæfell og Keflavík hafa heimaleikjaréttinn.

Sigurður Ingimundarson er sigursælastur þjálfaranna.
Sigurður Ingimundarson er sigursælastur þjálfaranna. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert