Opnast augað í tæka tíð?

Brynjar Þór Björnsson og Viðar Ágústsson
Brynjar Þór Björnsson og Viðar Ágústsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Myron Dempsey, Bandaríkjamaðurinn í liði Tindastóls, er í kapphlaupi við tímann um að verða klár í slaginn gegn KR í kvöld þegar liðin mætast öðru sinni í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik á Sauðárkróki. Dempsey missti af fyrsta leiknum eftir að hafa fengið högg í andlitið á æfingu á sunnudaginn, og án hans hafði Tindastóll ekki roð við KR-ingum í Vesturbænum.

Um er að ræða meiðsli við auga hjá Dempsey. Hann hefur nánast ekki getað opnað augað vegna bólgins vöðva við augað innanvert, en hefur heimsótt lækni daglega og unnið að því að láta bólguna hjaðna. Það mun hins vegar ekki skýrast fyrr en í dag hvort hann hefur jafnað sig nægilega vel til að geta spilað leikinn, en að öðrum kosti gera Tindastólsmenn sér vonir um að hann mæti til leiks í þriðja leiknum á sunnudag.

Darrell Flake hefur átt við meiðsli að stríða í allan vetur og óvíst er hve mikinn þátt hann getur tekið í leiknum í kvöld.

Mikil stemning er í Skagafirði vegna leiksins og áætlar Stefán B. Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, að fullt hús verði í Síkinu í kvöld, um 1.200-1.300 áhorfendur, sem hefur sennilega ekki gerst síðan Tindastóll var upp á sitt besta snemma á þessari öld. KR-ingar hyggjast vera með rútuferð fyrir sitt fólk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert