KR-ingar tryggðu sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla í körfuknattleik annað árið í röð og í 14. skipti frá upphafi með því að leggja Tindastól að velli, 88:81, í fjórða úrslitaleik liðanna á Sauðárkróki í kvöld.
KR-ingar unnu þar með einvígið, 3:1, og þeim tókst að vinna sinn fyrsta sigur á Króknum í vetur. Leikurinn var annars jafn og spennandi allan tímann. Liðin skiptust lengi vel á að hafa forystuna en hið reynda KR-lið var sterkari á lokasprettinum og innbyrti átta stiga sigur en KR hafði yfir eftir fyrri hálfleikinn, 40:39. Tindastóll hóf seinni hálfleikinn af miklum krafti og komst 10 stigum yfir en KR-ingar sýndu mátt sinn og meginn og sneru leiknum sér í vil.
Darrel Lewis átti frábæran leik og var stigahæstur með 37 stig og Myron Dempsey kom næstur með 18 stig. Hjá KR-ingum var Michael Craion stigahæstur með 24 stig og Pavel Ermolinskij, sem átti stóran þátt í snúa leiknum fyrir KR-inga, skoraði 21 stig.
Bein lýsing:
4. leikhluti:
10. KR er yfir, 87:81, og 10 sekúndur eru eftir. KR að tryggja sér titilinn. Leiknum er lokið, 88:81. KR er Íslandsmeistari 2015.
10. Pavel að klikka úr tveimur vítaskotum. 30 sekúndur eru eftir og KR er yfir, 86:81.
10. 48 sekúndur eru eftir og KR-ingar eru yfir, 86:79.
9. Helgi Már var að setja niður þriggja stiga körfu og KR-ingar eru yfir, 83:77. Eru KR-ingar að landa titlinum?
7. Það stefnir í rosalegar lokamínútur. Helgi Már var að setja niður þrist og koma KR í, 77:75, og Pavel var að bæta við tveimur stigum. KR er fjórum stigum yfir, 79:75. Stólarnir taka leikhlé.
5. KR-ingar eru komnir yfir, 74:73, í mögnuðum leik. Lewis er með 35 stig fyrir Tindastól og Craion er með 23 fyrir Tindastól.
4. Darrel Lewis er hreint ótrúlegur. Þessi 39 ára gamli leikmaður var að setja niður þriggja stiga körfu og koma Stólunum í, 73:68. Hann er búinn að skora 35 stig. Darrel Flake hefur lokið keppni. Hann var að fá sína 5. villu.
4. Tindastóll er yfir, 70:68, í gríðarlega miklum spennuleik. Darren Flake er kominn með fjórar villur eins og Pavel.
2. Tindstóll skorar fyrstu körfuna, hver annar en Darrel Lewis. Staðan er jöfn, 66:66.
1. Fjórði leikhluti er hafinn og nú er að duga eða drepast fyrir Tindastól.
- - - - - - - - - - - - - - - - -
3. leikhluti:
10. Þriðja leikhluta er lokið og staðan er, 64:62, fyrir KR . Pavel er kominn með fjórar villur. Darrel Lewis er með 30 stig fyrir Tindastól en Pavel er með 18 stig fyrir KR og Michael Craion 17.
8. Pavel Ermolinskij var að skora þriggja stiga körfu og koma KR-ingum yfir, 61:60, eftir að Stólarnir höfðu náð 10 stiga forskoti í byrjun þriðja leikhluta. Stólarnir taka leikhlé.
7. KR-ingar með gott áhlaup og hafa minnkað muninn niður í tvö stig. Tindastóll er enn yfir, 58:56. Spennan er gríðarleg. Darrel Lewis er með 28 stig fyrir heimamenn en Craion 17 fyrir KR.
5. Tindastóll er nú með undirtökin. Þeir eru yfir, 53:47. Pavel Ermolinskij var að fá sína þriðju villu. Darrel Lewis er óstöðvandi og er kominn með 26 stig.
3. Frábær byrjun hjá Stólunum. Það er 10 kafli og þeir eru yfir, 49:40. Finnur tekur leikhlé enda leikur KR-inga í molum.
2. Stólarnir byrja vel og skora fjögur fyrstu stigin. Tindastóll er yfir, 43:40.
1. Þá er þriðji leikhluti hafinn. Leikurinn er í járnum en KR-ingar hafa verið yfir megnið af leiknum. Nú er mikilvægt fyrir Stólana að halda áfram eins og þeir enduðu fyrri hálfleikinn. Íslandmeistarabikarinn er að sjálfsögðu í húsinu enda fer hann á loft ef KR vinnur.
- - - - - - - - - - - - - - - - -
2. leikhluti:
10. Fyrri hálfleik er lokið og KR er yfir, 40:39. Heimamenn áttu góðan endasprett og náðu að jafna en munurinn er aðeins eitt stig. Michael Craion er stigahæstur KR-inga með 12 stig og Brynjar Björnsson er með 8. Hjá Tindastóli er Darrel Lewis með 22 stig og Pétur Rúnar Birgisson 8. Stólarnir hafa tekið 11 sóknarfráköst og það er Finnur Ingi Stefánsson þjálfari KR-inga afar óhress með.
7. Þetta er hörkuleikur tveggja frábærra liða. Stólarnir eru með gott áhlaup en KR er yfir 38:35. Flake er ekki enn kominn á blað fyrir Stólana en Darrel Lewis hefur farið á kostum og hefur skorað 22 stig en Michael Craion er stigahæstur KR-inga með 10 stig.
5. Fjögur stig í röð hjá Dempsey, hans fyrstu stig og staðan er 36:31, KR í vil. Stuðningsmenn Stólanna ærðust af fögnuði þegar Dempsey braut ísinn.
4. KR-ingar eru enn með gott forskot en staðan er, 36:27. Lewis er kominn með 17 stig en Craion og Brynjar Þór Björnsson eru með 8 stig hvor fyrir KR-inga.
2. KR-ingar hafa mætt mjög ákveðnir til leiks og halda heimamönum frá sér. Staðan er, 32:22. Vörn Stólanna er ekki nógu góð.
- - - - - - - - - - - - - - - - -
10. Fyrsti leikhluti er að baki og KR-ingar eru yfir, 25:18. Íslandsmeistararnir hafa verið skrefinu á undan frá byrjun leiks. Brynjar Þór Björnsson er stigahæstur KR-inga með 8 stig en Darrel Lewis er með 13 stig. Dempsey er ekki kominn á blað og virkar hálf ryðgaður.
7. KR-ingar eru skrefinu á undan. Staðan er, 20:18. Lewis er kominn með 13 stig fyrir Stólana en Michael Craion er með 6 fyrir KR. Myron Dempsey var að koma inná í lið heimamanna í fyrsta skipti í þessu einvígi. Vondu tíðindin fyrir Tindastól er að Darrel Flake er kominn með þrjár villur.
5. Staðan er 11:11. Darrel Lewis er búinn að skora 9 stig fyrir Stólana
3. Þetta fer vel af stað og staðan er 9:6 fyrir KR-inga.
1. Michael Craion setur niður fyrstu körfu kvöldsins fyrir KR-inga.
0. Leikurinn er hafinn. Vonandi fáum við jafnan og spennandi leik. Byrjunarliðin eru þau sömu og hafa verið í síðustu leikjum.
0. Nú er allt að verða klár í „Síkinu“. Það er búið að slökkva ljósin og það er verið að kynna lið heimamanna.
0. Dómarar leiksins eru þrautreyndir en þeir eru Leifur Sigfinnur Garðarsson, Sigmundur Már Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.
0. Israel Martin þjálfari Tindastóls staðfesti í samtali við Svala Björgvinsson körfuboltaspeking Stöðvar 2 að Myron Dempsey mun ekki hefja leikinn í kvöld en hann er að koma til baka eftir meiðsli.
0. Stemningin í Síkinu er gríðarlega góð og víst er að heimamenn koma til með fá öflugan stuðning.
0. Stólarnir hafa endurheimt Bandaríkjamanninn Myron Demspey en hann hefur ekkert geta verið með í úrslitaeinvíginu vegna meiðsla.
0. KR-ingar eru 2:1 yfir í einvíginu og með sigri í kvöld tryggir liðið sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið og í 14. sinn frá upphafi. Fari Tindastóll með sigur af hólmi mætast liðin í hreinum úrslitaleik í DHL-höllinni á laugardaginn.
0. Nái Tindastóll að knýja fram oddaleik verður það í fyrsta skipti sem nýliðar komast í hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
0. KR hefur tapað báðum leikjum sínum gegn Stólunum á Króknum. Þeir töpuðu í deildinni og öðrum leiknum í úrslitakeppninni.