Daníel Guðni Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í körfuknattleik. Daníel Guðni tekur við liðinu af Sverri Þór Sverrissyni sem hætti með liðið eftir tímabilið í vor.
Daníel var aðstoðarþjálfari hjá Sverri Þór á síðastliðnu tímabili og hækkar nú um tign.
Daníel er 28 ára gamall og þetta er frumraun hans sem aðalþjálfari meistaraflokks. Daníel hefur leikið með karlaliði Grindavíkur undanfarin ár og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2013.
Grindavík fer því sömu leið við ráðningu á þjálfurum í karla- og kvennaflokki.
Sverrir hætti með bæði liðin í vor og á báðum vígstöðvum eru það aðstoðarþjálfarar Sverris sem báðir er blautir á bak við eyrun í meistaraflokksþjálfun sem taka við liðunum.