Kristófer fær líklega ekki frí

Kristófer Acox lék með KR hér á landi áður en …
Kristófer Acox lék með KR hér á landi áður en hann hélt vestur um haf. mbl.is/Golli

Væntingar forráðamanna Körfuknattleikssambands Íslands um að hægt verði að tefla landsliðsmanninum Kristófer Acox fram í lokakeppni Evrópumeistaramótsins í Berlín hafa dvínað verulega.

Kristófer er á skólastyrk hjá Furman-háskólanum í S-Karólínuríki í Bandaríkjunum og skólinn vill ekki sleppa Kristófer í þrjár vikur vegna EM. „Ég tel nánast útilokað að Kristófer geti verið með á EM ef ég miða við síðustu samskipti okkar við forráðamenn skólans,“ sagði Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær og spurði út í gang mála.

Hannes og samstarfsfólk hans munu líklegast ræða málin frekar við Bandaríkjamennina en nokkuð langt er í land með að ná samkomulagi. Forráðamenn skólans eru tilbúnir að leyfa Kristófer að spila á EM og eru tilbúnir að sleppa honum í þá viku sem riðillinn fer fram í Berlín. Fyrir íslenska landsliðið eru slíkir skilmálar ekki ásættanlegir því þá tæki hann ekki þátt í undirbúningsleikjum og æfingaferðum liðsins fyrir mótið.

Kristófer Acox lék sína fyrstu A-landsleiki fyrir Ísland á Smáþjóðaleikunum í vor og lét nokkuð að sér kveða. Verður að teljast líklegt að hann myndi komast í tólf manna hópinn sem fer til Berlínar ef mið er tekið af þeirri frammistöðu. kris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert