Haukur til Charleroi?

Haukur Helgi Pálsson sækir að körfu Þjóðverja í fyrsta leik …
Haukur Helgi Pálsson sækir að körfu Þjóðverja í fyrsta leik Íslands á EM í Berlín á dögunum. AFP

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er í viðræðum við belgíska félagið Spirou Charleroi. Haukur staðfesti þetta þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær. Haukur segir viðræður standa yfir en hann er ekki kominn með skriflegt tilboð í hendurnar.

Haukur stóð sig geysilega vel með íslenska landsliðinu á EM. Hann skoraði 12,8 stig að meðaltali og skotnýting hans var mjög góð eða 48%. Þá tók hann tæplega þrjú fráköst að meðaltali og stóð sig vel í að dekka hávaxnari menn undir körfunni.

Þátttöku Íslands er nýlokið og frammistaða Hauks gæti ennþá skilað frekari áhuga, en enn sem komið er segir hann Charleroi vera eina áhugaverða kostinn í stöðunni. Mörg félög í Evrópu eru búin að ganga frá leikmannakaupum fyrir veturinn. Áður hafði Haukur ýtt frá sér fyrirspurnum frá Svíþjóð en þar lék hann á síðasta keppnistímabili.

Fari svo að Haukur semji við belgíska félagið ætti að bíða hans barátta um titla í vetur. Liðið hefur tíu sinnum orðið belgískur meistari og fimm sinnum bikarmeistari. Haukur myndi jafnframt spila í Eurocup-Evrópukeppninni. Hjá liðinu eru nokkrir bandarískir leikmenn en alls voru þeir sjö á síðasta tímabili. Heimavöllur liðsins tekur 6.300 manns í sæti.

Belgíska deildin þykir ekki jafnhátt skrifuð og þær stærri í nágrannalöndunum eins og þýska deildin og sú franska. Belgar eru hins vegar á uppleið í körfuboltanum rétt eins og í fótboltanum. Landslið þeirra vann þrjá leiki í riðlakeppninni á EM og komst í 16-liða úrslitin. Vann til að mynda Litháen, sem er stórveldi í körfuboltanum. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert