Helmingslíkur á að Odom lifi af

Lamar Odom og Kobe Bryant er þeir voru saman hjá …
Lamar Odom og Kobe Bryant er þeir voru saman hjá Los Angeles Lakers. AFP

Helmingslíkur eru á því að bandaríski körfuboltamaðurinn, Lamar Odom, komist lífs af á Sunrise-spítalanum í Las Vegas en fjölmiðlar þar í landi greina frá því í kvöld. Odom fannst meðvitundarlaus á vændishúsi í gær.

Lögreglan í Nevada var kölluð út í gær vegna meðvitundarlauss manns á vændishúsinu Love Ranch en ein af vændiskonum staðarins kom að honum froðufellandi. Talið er að hann hafi notað náttúrlegt stinningarlyf í bland við koníak en ekki hafa frekari fregnir borist af því hvort önnur lyf voru í spilinu.

Odom, sem er 35 ára gamall, var í kjölfarið fluttur með sjúkrabíl á Sunrise-spítalann í Las Vegas þar sem hann liggur nú þungt haldinn en Khloe Kardashian, fyrrum eiginkona hans, situr ásamt fjölskyldu sinni hjá körfuboltastjörnunni.

Líffæri hans eru að gefa sig samkvæmt bandarískum fjölmiðlum en nýrun, lungun og hjartað eru í slæmu ásigkomulagi. Helmingslíkur eru á því að Odom komi til með að lifa af en það er TMZ sem greinir frá því í kvöld.

Samkvæmt heimildum TMZ þá reyna læknar spítalans hvað þeir geta til þess að greina hvort Odom hafi hlotið einhvern skaða á heila en að það sé erfitt þar sem hin líffærin eru að gefa sig, þó séu líkur á því að það hafi gerst.

Uppfært 20:55: Odom viðurkenndi að hafa tekið inn kókaín rétt áður en hann mætti á vændishúsið. Richard Hunter, yfirmaður vændishússins, hringdi í neyðarlínuna er Odom fannst meðvitundarlaus og greindi jafnframt frá því í símtalinu að Odom hefði tekið inn kókaín en að ekkert hefðbundið eftirlit sé með gestum og eiturlyfjaneyslu þeirra. Samkvæmt heimildum TMZ þá fundu læknar kókaín í blóði körfuboltamannsins sem liggur milli heims og helju á Sunrise-spítalanum í Las Vegas.

Odom hefur unnið tvo hringa á ferlinum en hann varð meistari með Los Angeles Lakers árin 2009 og 2010. Hann hefur þá einnig leikið með Dallas Mavericks, Los Angeles Clippers, Miami Hit og nú síðast spænska liðinu Laboral Kutxa.

Lamar Odom í leik með Los Angeles Clippers
Lamar Odom í leik með Los Angeles Clippers mbl.is/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert