Lamar Odom, fyrrum leikmaður Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta, berst nú fyrir lífi sínu en hann var fluttur með sjúkraflugi til Las Vegas. Bandaríski miðillinn TMZ greindi fyrst frá þessu og lögreglustjórinn í Nye í Nevada hefur staðfest fregnirnar.
Odom, sem er 35 ára gamall, skildi við Khloe Kardashian, systur Kim Kardashian, undir lok árs 2013, en síðan þá hefur allt legið niður á við hjá Odom.
Hann heimsótti vændishúsið Dennis Hoff's Love Ranch í Nevada-ríki, á laugardag og skemmti sér þar fram á þriðjudag en það var þá sem hann fannst meðvitundarlaus á herbergi sínu.
Ein af vændiskonunum fann Odom í herberginu en samkvæmt heimildum bandaríska miðilsins TMZ þá er ástand Odom slæmt. Körfuboltastjarnan hafði þá tekið náttúrlegt stinningarlyf fyrr um kvöldið og ku það vera orsökin. Hann er nú á leið með sjúkraflugi til Las Vegas en beðið er frekari fregna af líðan hans.
Uppfært 07:33: Lögreglustjórinn í Nye-héraði í Nevada hefur staðfest fregnirnar. Líffæri Odom eru að gefa sig samkvæmt bandarísku miðlunum en hann er kominn á Sunrise-spítalann í Las Vegas. Batahorfur eru ekki góðar.
Odom hefur átt frábæran körfuboltaferil til þess en hann varð tvívegis meistari með Lakers í NBA-deildinni, 2009 og 2010. Þá hefur hann leikið með Miami Heat, Los Angeles Clippers, Dallas Mavericks og nú síðast spænska liðinu Laboral Kutxa.