Bryndís Guðmundsdóttir er gengin til liðs við Íslandsmeistara Snæfells í körfuknattleik en hún skrifaði undir samning við félagið í kvöld.
Bryndís er uppalinn Keflvíkingur og hefur leikið alla sína tíð með Keflavík fyrir utan eitt ár þegar að hún lék með KR árið 2012. Bryndís var gríðarlega atkvæðamikil á síðasta tímabili og skoraði þá 23.5 stig í leik.
Í tilkynningu frá Snæfelli segir að stjórnir Keflavíkur og Snæfells hafi komist að samkomulagi um vistaskipti landsliðskonunnar og hafi hún samið við Snæfell til 2ja ára.
Bryndís verður lögleg á morgun þegar Snæfell tekur á móti Hamri í 2. umferð Dominos-deildar kvenna.