Baldur Ingi kveður Garðabæinn

Stjarnan er í 6. sæti af 7. liðum í Dominos-deild …
Stjarnan er í 6. sæti af 7. liðum í Dominos-deild kvenna en ekkert lið fellur úr deildinni í vor. mbl.is/Árni Sæberg

Baldur Ingi Jónasson, þjálfari Stjörnunnar í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik, hefur sagt starfi sínu lausu. Þetta kemur fram á vefmiðlinum karfan.is en körfuknattleiksdeild Stjörnunnar staðfesti fréttirnar við körfuna.

Baldur tók við þjálfun Garðabæjarfélagsins síðastliðið vor en liðið er nýliði í efstu deild kvenna. Gengið í vetur hefur ekki verið í samræmi við væntingar en Stjarnan er í næstneðsta sæti deildarinnar, hefur unnið þrjá leiki en tapað 15. 

Næsti leikur Stjörnunnar er ekki fyrr en 28. febrúar en þá kemur topplið Hauka í heimsókn í Garðabæinn. Vonast Stjörnufólk til að geta nýtt þann tíma til að finna eftirmann Baldurs.

Yfirlýsing frá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar:

Baldur Ingi Jónasson hefur ákveðið að stíga til hliðar sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar.

Leit að eftirmanni Baldurs er hafin svo nýr þjálfari geti nýtt hið langa frí sem framundan er en stelpurnar eiga næst leik 29. febrúar gegn Haukum.

Stjórn kkd. Stjörnunnar þakkar Baldri kærlega fyrir samstarfið og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert