Pavel Ermolinskij var með stóran kælipoka vafinn um vinstri kálfann eftir leik oddaleik KR og Njarðvíkur í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í gær. Pavel gat leyft sér að brosa en hann var með 6 stig, 8 stoðsendingar og 5 fráköst í öruggum, 92:64, sigri KR í kvöld.
Pavel tók ekki þátt í fjórða leik liðanna í Njarðvík á miðvikudagskvöld en hann tognaði lítillega á kálfa í upphitun fyrir þann leik. Það virtist ekki há honum í kvöld. „Ég er fínn. Það gerðist ekkert í kvöld, þetta var aðallega spurning um það,“ sagði Pavel við mbl.is eftir leikinn í kvöld.
„Ég tognaði smá í kálfanum. Það er enginn sársauki og það er bara spurning hversu lengi hann tórir. Það er einhver tognun búin að myndast og það er eitthvað á einhverjum síðustu þráðum þarna. Það er vonandi að ég eigi nokkra leiki eftir,“ bætti Pavel við en hann var ánægður með leikinn í kvöld:
„Við vorum nokkuð mikið betri. Við spiluðum eins og við vildum spila þetta. Náðum ákveðnu forskoti og drápum síðan leikinn niður og fórum að labba með þeim vegna þess að þeir eru hættulegastir þegar þeir komast á flug og fá stemningsskot. Við erum með ágætis tak á þeim fimm á fimm en um leið og skytturnar þeirra komast af stað þá er þetta erfiðara. Við reyndum að halda þeim niðri og skora nokkrar körfur af og til hinum megin.“
KR er komið í úrslit þriðja árið í röð og getur orðið fyrsta liðið til að vinna þrjá Íslandsmeistaratitla í röð síðan Keflavík gerði það árin 2003-2005. Andstæðingar KR í úrslitum verða Haukar en KR hafði betur í báðum leikjum liðanna í vetur.
„Lið sem komið í úrslit á skilið að vera þarna. Við getum alveg horft á einhverja töflu og úrslitin í vetur á milli liðanna og allt það dæmi. Það er komið í úrslit og allar pælingar með eitthvað annað eru kjánalegar. Þeir eiga jafnmikið skilið að vera þarna og við. Það er ein rimma eftir og svo vonandi sigur,“ sagði Pavel.