Haukar yfir í úrslitaeinvíginu

Úr Schenker-höllinni í kvöld. Það er hart barist í fyrsta …
Úr Schenker-höllinni í kvöld. Það er hart barist í fyrsta leiknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar unnu Snæfell, 65:64, í fyrsta leik þessara liða í úrslitarimmunni í Domino-deild kvenna í körfubolta í kvöld, en leikið var í DB Schenker-höllinni. Fylgst var með öllu því helsta hér á mbl.is.

Leikurinn byrjaði afar rólega. Staðan var 4:4 etir fyrstu sjö mínúturnar áður en á Haukar settu í næsta gír. Helena Sverrisdóttir, sem hefur verið mögnuð með Haukaliðinu á tímabilinu, setti þá niður tveggja stiga körfu og náði í víti. Fáeinum sekúndum síðar skoraði hún laglega þriggja stiga körfu.

Haiden Denise Palmer, sem hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar, lét vaða á körfuna allan leikinn, en hitti aðeins úr 9 af 29 skotum sínum. Haukaliðinu tókst að verjast vel gegn henni, þrátt fyrir að hún hafi verið með 20 stig og 18 fráköst.

Haukar héldu góðri forystu fram að fjórða leikhluta en þá tók Snæfellsliðið við sér. Á meðan Haukar voru mest sextán stigum yfir í leiknum, þá náði Snæfell þessu niður í eitt stig þegar um það bil fimm mínútur voru eftir. Pálína Marie Gunnlaugsdóttir kláraði þó dæmið fyrir Hauka með því að setja niður fimm stig á lokakaflanum sem reyndust mikilvæg.

Snæfell náði á einhvern ótrúlegan hátt undir lokin að setja tvær þriggja stiga körfur á síðustu 20 sekúndunum og minnka þannig muninn í 65:64, en lengra komust þær ekki og Haukar því 1:0 yfir í einvíginu.

Liðin mætast næst á mánudag en þá á heimavelli Snæfells í Stykkishólmi. 

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leik lokið.

40. Haukar - Snæfell, staðan er 65:64. Leiknum er lokið en þvílík lokamínúta!!! Snæfell skoraði tvær þriggja stiga körfur og munurinn fór niður í eitt stig. Þær voru grátlega nálægt því að koma til baka, en það hafðist þó ekki. Haukar með sigur í fyrsta leik. 

37. Haukar - Snæfell, staðan er 60:56. Palmer setti niður tveggja stiga körfu og munurinn var kominn í eitt stig. Þá kom Pálína með virkilega öflugan þrist og setti svo niður tvær tveggja stiga körfur. Munurinn 8 stig þegar tvær mínútur eru eftir. Pálína var að loka þessum leik!

35. Haukar - Snæfell staðan er 57:54. ÞAÐ ER ALDEILIS!!! Við erum komin með leik. Það er þriggja stiga munur þegar 4:26 er eftir á klukkunni. Snæfellsliðið búið að spila fína vörn síðustu mínútur og nýta færin sín. Ég fagna þessari spennu!

34. Haukar - Snæfell, staðan er 57:47. Rúmlega fimm mínútur eftir af leiknum og það er búið að taka leikhlé. Haukar ná að halda tíu stiga forskoti. Það getur þó allt gerst á fimm mínútum. Finnst ólíklegt að við fáum dramatík en hver veit?

30. Haukar - Snæfell, staðan er 51:38. Haukar komnir með völd aftur. Þrettán stiga forysta fyrir síðasta leikhluta. Þetta verður erfitt fyrir Snæfell en það kom þó ágætis kafli í þriðja leikhluta sem liðið getur byggt á. Spilamennskan hjá Haukum hefur hins vegar bara verið það góð í leiknum að ég sé ekki liðið tapa í dag.

28. Haukar - Snæfell, staðan er 46:37. Við erum komin með leik! Snæfellsliðið að spila mun betur núna, virkilega fínn kafli. Það er von á mögnuðum fjórða leikhluta. Ég hef það á tilfinningunni!

26. Haukar - Snæfell, staðan er 43:31. Þetta er tólf stiga leikur. Palmer var að setja niður þrist. Er hún að detta í gang? Það verður fróðlegt að sjá fyrir fjórða leikhlutann. Viljum fá meiri spennu í þennan leik.

25. Helena Sverrisdóttir fer af velli. Hún virðist ekki alveg sárþjáð en meiðslin hafa þó áhrif á hana. Hún er farin inn í klefa. Haukaliðið má ekki við því að missa hana lengi úr þessum leik.

25. Haukar - Snæfell, staðan er 37:25. Fjögur stig í röð hjá gestunum. Erum við að fá líf í þennan leik?

23. Haukar - Snæfell, staðan er 37:21. Palmer enn ísköld og Snæfellsliðið yir höfuð. Það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að liðið nái að snúa þessu við. Haukaliðið virkar yfirvegað, bæði varnarlega og sóknarlega.

21. Síðari hálfleikur er kominn af stað.

Hálfleikur.

20. Haukar - Snæfell, staðan er 33:17. Haukaliðið á frábæra sókn sem endar með þriggja stiga körfu frá Pálínu. Það er sextán stiga munur núna og kominn hálfleikur. Haukaliðið er að spila miklu betur sín á milli á meðan Snæfell er að reyna að skjóta við fyrsta tækifæri. Denise Palmer er að eiga afar slakan leik og þá virðist Snæfellsliðið ekki með.

18. Haukar - Snæfell, staðan er 30:15. Fimmtán stiga munur og styttist í hálfleik. Það er sama tuggan hjá gestunum, það er bara verið að skjóta úr öllum áttum en það gengur þó lítið, liðið á engin svör þessa stundina.

16. Haukar - Snæfell, staðan er 28:13. Gunnhildur Gunnarsdóttir neglir þarna lófanum í andlitið á Helenu. Þetta virkaði ekkert sérstaklega þægilegt. Dómarateymið dæmir villu.

15. Haukar - Snæfell, staðan er 28:13. Haukar með tvær virkilega öflugar sóknir. Pálína setur niður tveggja stiga körfu og svo þrist í næstu sókn. Hún er komin í gang. Helena með tvo þrista svo í röð. Hún var ein á auðum sjó. 

13. Haukar - Snæfell, staðan er 17:11. Þetta er sex stiga leikur. Snæfell var að setja niður einn þrist. Palmer komin með sex stig. Hún þarf að rífa sig í gang, aðeins búin að hitta 3 af 10 skotum sínum.

11. Annar leikhluti er hafinn.

10. Haukar - Snæfell, staðan er 13:6. Fyrsta leikhluta er lokið. Þetta leit hrikalega út þegar þrjár mínútur voru eftir en þá fór Haukaliðið í ham. Nú er sjö stiga munur á liðunum. Snæfell þarf eitthvað að skoða sín mál. Það gengur illa að hitta. Palmer var öflug í upphitun en ekkert gengið í byrjun leiks hjá henni þó. Annar leikhluti hefst nú eftir smá.

7. Haukar Snæfell, staðan er 10:6 Það verður allt vitlaust í höllinni er Helena Sverrisdóttir setur niður tveggja stiga og nær í víti. Vítið klikkaði þó. Helena setur svo þrist niður aðeins mínútu síðar. Palmer setti svo niður tveggja stiga körfu.

5. Haukar - Snæfell, staðan er 4:4 Það er virkilega slök skotnýting fyrstu mínúturnar. Það fer liggur við ekkert ofan í. Það sést augljóslega á tölunum, en bæði lið skjóta og skjóta en ekkert gengur. Vonandi batnar það á næstu mínútum.

2. Haukar - Snæfell, staðan er 0:2Denise Palmer setur þægilegt tveggja stiga skot niður. Pálína Marie Gunnlaugsdóttir svarar með góðu skoti.

1. Leikurinn er kominn af stað.

0. Liðin eru að mæta aftur á völlinn. Þetta má fara að byrja núna!

0. Slöpp mæting í fyrsta leik. Eitthvað um 100 manns til þessa.

0. Liðin hafa mæst fjórum sinnum í deildinni á þessu tímabili. Haukar hafa unnið tvo og Snæfell unnið tvo. Haukar náðu í stærsta sigurinn í byrjun mars þegar liðið vann 78:59, eða með nítján stiga mun.

0. Gleymum því ekki að Helena Sverrisdóttir er með 24,1 stig að meðaltali í leik. Ég get ekki betur séð en að við fáum einhverja svakalega veislu.

0. Liðin eru búin að vera að hita upp síðasta hálftímann. Haiden Denise Palmer verður í góðu formi í dag, er með það á hreinu. Það þarf reyndar engan sérfræðing til þess að spá fyrir um það, enda er hún með um það bil 25,5 stig að meðaltali í leik á þessari leiktíð.

0. Lýsingin verður uppfærð jafn óðum hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert