Héldum aftur af þeim í dag

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR. mbl.is/Eggert

„Liðin þreifuðu aðeins hvort á öðru í fyrsta leikhluta og við náðum að læra aðeins á þá, og eftir það fannst mér þetta koma hjá okkur. Haukarnir eru vel spilandi og góðir í körfubolta, en við náðum að halda aftur af þeim í dag. Þegar þeir hitta jafnilla fyrir utan og þeir gerðu í dag þá er þetta auðveldara,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, eftir sigurinn á Haukum í kvöld.

KR vann öruggan sigur, 91:61, og er því 1:0 yfir í einvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta, en það heldur áfram á Ásvöllum á föstudagskvöld kl. 18.30.

„Sóknarlega fundum við lausnir og héldum áfram að mjólka þær, og þegar það gengur þá erum við flottir,“ sagði Finnur, en með Michael Craion í ham virtust KR-ingar eiga í minnstu vandræðum með að komast að körfunni í góð færi. „Mér fannst Pavel gera vel í að stýra „tempóinu“, og stýra hraðanum í því hvernig við fórum í gegnum „bolta-skrínin“. Þegar við áttuðum okkur á því sem þeir voru að gera þá fannst mér við finna lausnir. Að sama skapi er margt sem við getum gert betur og það verður gaman að skoða það og undirbúa okkur fyrir föstudaginn,“ sagði Finnur, en það hlýtur að vekja ugg hjá Haukum ef KR-ingar telja sig eiga eitthvað inni eftir leikinn í kvöld:

„Það er alltaf hægt að gera eitthvað betur. Mér fannst þeir fá fullmikið af sóknarfráköstum í fyrri hálfleik, og fullmikið af auðveldum körfum. Mér fannst þeir líka aðeins ná að ýta okkur út úr okkar aðgerðum í seinni hálfleik þegar við vildum stýra hraðanum, en það er endalaust hægt að skoða þessa og fleiri hluti,“ sagði Finnur.

Eðlilegt að það verði spennufall í stúkunni

Aðspurður út í áhorfendurna í DHL-höllinni í kvöld, sem voru nokkuð rólegir miðað við fyrsta leik í úrslitum og hafa einnig oft verið fleiri þegar svo langt er komið í úrslitakeppni, svaraði Finnur:

„Það er kannski eðlilegt að það verði smáspennufall í stúkunni eins og varð í liðinu eftir oddaleikinn á föstudaginn. Það má heldur ekki gleyma því að það var stórleikur í Hafnarfirði hjá Haukunum í handboltanum í kvöld, og það verður að hrósa þeim fyrir þeirra starf og að vera með öll þessi lið í úrslitakeppni. Ég býst við að það verði þéttpakkað á Ásvöllum á föstudaginn og stemningin mikil.“

„Við þurfum líka að skapa stemninguna í stúkunni. Þegar við spilum vel þá kemur hún með. Við ætlum ekki að vera hérna á vellinum og vonast eftir því að stuðningsmennirnir geri hlutina fyrir okkur. Við þurfum að gera okkar og þá fylgja þeir,“ bætti Finnur við.

Reiknar með að Pavel spili næsta leik

Pavel Ermolinskij meiddist í hné í leiknum og hafði áður verið að glíma við meiðsli í kálfa. Finnur kvaðst þó reikna með að njóta krafta hans í næsta leik:

„Hann datt illa og ég held að þetta sé ekkert alvarlegra en það. Það var ágætt að geta hvílt hann síðustu sjö mínútur leiksins, við þiggjum alla svona aukahvíld. Við þurfum að sjá til þess að hann fái góða meðhöndlun hjá Bjartmari sjúkraþjálfara og co, og ég á ekki von á öðru en að hann verði í fínu lagi á föstudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert