KR-ingar eru hungraðir

Kári Jónsson og Michael Craion í hörðum slag í DHL-höllinni …
Kári Jónsson og Michael Craion í hörðum slag í DHL-höllinni í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Fyrsta leik KR og Hauka í úrslitum Domino‘s-deildar karla í körfuknattleik fór fram í kvöld. Mikil spenna ríkti fyrir leik og höfðu margir á orði að Haukar væru til alls líklegir og myndu mögulega geta strítt ríkjandi íslandsmeisturum í bæði þessum fyrsta leik og seríunni sjálfri, en liðin þurfa að vinna þrjá leiki til að landa tiltinum.

KR-ingar voru hinsvegar á öðru máli og eftir rólega og afslappaða byrjun byrjuðu leikmenn að valta yfir grunlausa Hauka og unnu að lokum fullnaðarsigur, sannfærandi og verðugan meistaraefnum, 91:61!

Haukar hófu leikinn betur og voru yfir eftir fyrsta hluta. Þessi Adam var hinsvegar ekki lengi í paradís því KR kom tilbaka í öðrum hluta og unnu hann sannfærandi og staðan í hálfleik því 43:30.

Á fyrstu mínútum seinni hálfleiks gerðu síðan heimamenn nánast útum leikinn og gáfu í raun aldrei þumlung eftir. Haukarnir ráku sig á vegg, trekk í trekk, í sóknarleik sínum; varnarleikur KR var nánast óaðfinnanlegur í seinni hálfleik og því kom það ekki á óvart að Haukaliðið hafi bakbrotnað líkt og það gerði. Lokatölur urðu 91:61 en hafa ber í huga að þetta er aðeins einn leikur og í svona seríu milli tveggja góðra liða eru slíkar tölur nokkuð algengar.

Hjá KR var liðsheildin sein í gang og sást í losaragang hjá henni á fyrstu 10 mínútum leiksins en þegar vörnin fór að smella saman fór sóknin sömu leið undir traustri handleiðslu Brynjars Björnssonar og Michael Craion, sem skoruðu grimmt og söfnuðu framlagspunktum; þeir áttu 34 slíka punkta í fyrri hálfleik gegn aðeins 27 hjá öllu Haukaliðinu á sama tíma.

Þetta var nóg til að geta spáð fyrir um hver stefnan yrði og Haukar í raun aldrei tilbúnir fyrir KR-liðið í þessum ham. Pavel Ermolinskij átti stórleik og líklega besti maður liðsins þó erfitt sé að pikka einn út. Allir í KR áttu góðan leik og þegar slíkt gerist vinnur ekkert lið það á þessum velli.

Hjá Haukum var enginn á pari við eðlilega getu sína; Kári Jónsson átti spretti en meiddist á ökkla í þriðja hluta og verður að teljast verstu tíðindin fyrir Hauka í þessum leik, tapið nær ekki einu sinni að skyggja á þessa staðreynd. Brandon Mobley, Haukur Óskarsson, Finnur Atli Magnússon og Kristinn Jónasson voru einfaldlega skelfilega lélegir en það var liðsheildin líka. Þessir herramenn verða að gera betur ef liðið ætlar sér stærri bita af þessari köku því það liggur ljóst fyrir að KR-ingar eru hungraðir og ekki í neinu stuði að gefa með sér.

KR er þar með komið með 1:0 forystu í einvígi liðanna, en vinna þarf þrjá sigra til þess að standa uppi sem Íslandsmeistarar.

Leik lokið! 91:61

6sek. - 90:61

4:00 - Það er barist en öllum er ljóst sem hér spila hvort liðið sigra í leiknum. Núna eru leikmenn í smá pissukeppni og láta líkama og orð fljúga frálslega. Hér á að gefa tóninn fyrir næstu viðureign og ekkert er skafið utan af hlutum! 79:56

5:30 - Kiddi Marínós setti þrist og Haukar ná að stoppa KR! Þetta er hinsvegar ekki nóg í stöðunni 77:52 þetta langt liðið á leik. 

7:04 - Leikhlé! Brynjar smellir þrist eftir að KR þreytti svæðisvörnina aðeins og fann opna skotið! Einfalt, þessi leikur er búinn! Haukar hafa ekkert sýnt sem réttlætir trú á þá í þessum leik. 77:49

7:45 - Haukum er fyrirmunað að spila vel! KR lokar á allar tilraunir til að derra sig og slúttar svo bara með þristi hinu megin... 74:49

9:00 - Pavel smellir þrist og Mobley svarar með tvist... Þetta byrjar ekki vel fyrir Hauka því Darri setur skot niður í næstu sókn!!! 71:47

Verkefni Hauka er ærið og það byrjar í vörninni; ef þeir ná að stoppa KR í fyrstu sóknum þess og skora í kjölfarið er mögulegt að þeir nái að gera leik úr þessu en á þessu eru mjög grannar líkur... 

3.hluti allur! 66:45 - Haukar hafa næstum hrunið, það mun staðfestast á fyrstu tveimur mínútum síðasta hluta. Sóknarleikur liðsins er einfaldlega ekki til staðar; leikmenn eru að leika sóló og ekki sem lið og það er einfaldlega vegna þess að menn eru ekki nærri nógu góðir til að brjóta vörn KR á bak aftur. Allir KR-ingar eru að loka á sinn mann, án þess að þurfa til þess mikla hjálp og við þessu eiga Haukar engin svör. KR-ingar láta svo boltann ganga vel á móti 2-3 svæðisvörn sem Haukar hafa spilað megnið af þessu fjórðung. Hún virkar ekki nægilega vel því það kemur engin pressa á KR, heldur fá þeir að gefa boltann auðveldlega á milli og fá alltaf opin skot. 

1;20 - Það gengur ekkert hjá Haukum; þeirra sókn er í molum! 64:43

3:04 - Haukar hafa núna spilað svæðisvörn síðustu mínútur og það hefur ekki gengið nægilega vel því bæði Darri og Helgi hafa sett þrista. Haukar eru samt aðeins ágengari og hugrakkari í sókninni og það skilar a.m.k. stigum á töfluna...Pavel liggur á gólfinu og virðist hafa meiðst... ekki eru það betri tíðindi en þau sem ég bauð uppá áðan!!!  60:41

4:42 - Kári snéri á sér ökklann og þetta eru slæm tíðindi, ekki bara fyrir Hauka, heldur öll okkar sem ætla að hafa gaman að þessari seríu. Hann fer af velli! KR eru að leggja grunninn hérna og ég spái að þeir brjóti Hauka á bak aftur innan skamms! 57:36

5:32 - Núna eru dómarar að ráðfæra sig. Finnur Atli fékk sóknarvillu og Brynjar Þór veittist lítillega að honum að því er vírðist og núna er lagt á ráðin... það er eftir engu að bíða, en við bíðum aðeins... 54:34 er staðan ennþá... Báðir leikmenn fá óíþróttamannslega villu og sjálfur Salómon hefur talað! Allt í orden og leikurinn getur haldið áfram.

5:55 - Darri fær vítaskot! KR virðast vera að leggja drögin að sigri sínum hérna... Haukar sættast við löng skot og eru alls ekki álitlegir í sínum sóknarleik. 54:34

6:44 - Pavel skorar! 50:34

7:30 - KR-ingum gengur ekki eins vel að finna körfuna en fá alltaf annað tækifæri og skora því oftar en ekki... Haukar eru að leggja á sig en gengur illa í sókn og geta ekki náð fráköstum í vörn... lítur ekki vel út þetta status quo fyrir þá! 

9:00 - Kári stelur og skorar! KR hefur hinsvegar tekið 3 sóknarfráköst á þessari upphafsmínútu, og skorað! 45:32

Seinni hálfleikur hafinn! 

Hálfleikur! Kári og Emil eru þeir einu sem hafa spilað af eðlilegri getu; Hauka skortir verulega framlag frá Mobley og Hauki. Kiddarnir af bekknum, Marínósson og Jónasson, hafa komið ágætlega inní þetta sóknarlega en ljóst að sá síðarnefndi á við ramman reip að draga í að dekka Craion. En ljóst er það að Haukar vantar liðsheild, sem sást vel í í upphafi leiks, en hefur látið sig hverfa. Ég tek það hinsvegar ekki af KR-ingum, þeir hafa sýnt hversu góðir þeir eru og komið mjög vel tilbaka eftir að hafa skorað aðeins 13 stig í fyrsta hluta. 

Hálfleikur! Þess ber að geta að Haukar skoruðu aðeins 11 stig í öðrum hluta og að Craion og Brynjar eru með 34 framlagspunkta saman, Haukaliðið með 27 slíka! Þrátt fyrir að vörn KR hafi verið nokkuð góð í öðrum hluta sást greinilega að Haukamenn byrjuðu kerfisbundið að hörfa, þ.e., þeir hættu að ráðast með sama hætti á körfuna og klikkuðu illa úr upplögðum færum undir körfunni. Slíkt má ekki gerast hjá þeim ef þeir ætla sér að gefa liðinu tækifæri til að vinna þennan leik. 

Hálfleikur! 43:30 - KR hóf leikinn rólega en hafa klárlega náð undirtökunum núna, með frábærum varnarleik. Haukar, sem byrjuðu mjög vel og voru aggressívir, hafa alveg dottið inní skjaldbökuskelina sína því leikmenn eru mun ragari við að gera mistök núna en þeir voru á fyrstu 15 mínútum leiksins. Á aðeins 5 mínútum hefur KR tekist að taka öll völd og skilja áþreifanlegt far á útliti Haukaliðsins. Núna dugar ekkert annað fyrir Haukana en að nýta næsta hluti í að vinna þetta forskot niður og það er alltaf þrautinni þyngra hérna í Vesturbænum. KR-ingar hafa einfaldlega sett í gírinn og það þurfti ekki nema smá glugga, gluggi sem Hafnfirðingar opnuðu aðeins um stund! Svakalegur seinni hálfleikur í uppsiglingu en ljóst að þetta verður mjög erfitt fyrir gestina, sem hafa í raun klúðrað þessu að mestu sjálfir...

1:19  - Haukar eru að reyna að bíta frá sér með því að keyra meira upp að körfunni, það gengur betur en hitt bullið a.m.k. KR hafa hinsvegar gengið á lagið og líður mun betur og þess vegna fer meira niður hjá þeim, m.a.s. svona sirkusskot eins og Helgi læddi framhjá grunlausri vörn gestanna... Brynjar er einnig að sjóðhitna og þetta stafar allt saman vandræði fyrir Haukana... 38:30

3:00 - Þetta gera þeir nákvæmlega eins og ég spáði... fyrsta áhlaupið þeirra kom eftir leikhléið og núna líta Haukar út fyrir að vera "litla liðið" 32:26

4:30 - Leikhlé! Þetta er að snúast núna og KR-ingar að finna fínan sóknartakt en hann kemur úr iðrum varnarinnar, sem hefur haldið Haukum alveg frá körfunni og þeir því þurft að sætta sig við draslskot fyrir utan. Núna geta KR láta kné fylgja kviði og gert Haukana litla í sér fyrir leikhléið! 27:24

5:00 - Núna hafa KR tekið aðeins völdin, Haukar sætta sig við léleg og löng skot á meðan KR bíður átekta, setur boltann inná Craion og þá gerast hlutirnir. Haukar eru að missa tökin og KR að grípa þau! 27:24

 8:21 - Kristinn Marínósson setur þrist! 18:22

9:39 - Brynjar Björn með góðan snúning, skorar og fær vítið! Mjög vel byrjað hjá KR! 16:19

1.hluti allur! 13:19 - KR-ingum er klárlega ekki skemmt; þeir hafa verið teknir aðeins í bólinu því þeir virðast ekki hafa reiknað með jafn góðum varnarleik og Haukar mættu mér hér í byrjun! Craion og Pavel hafa fengið sín stig en aðrir ekki hitt fyrir utan opnum skotum. Teigurinn er vel varinn þó að CRaion sé kominn með 6 stig og ljóst að áhersla Hauka er þar. KR hefur byrjað rólega en munu vakna von bráðar en þeirra leikur hefur rúllað samt vel og það sem er í raun að og ólíkt þeirra karakter er að þeir hitta mjög illa og er ekki nægilega aggessívir að körfunni í sókn. 

1:09 - KR nær að narta núna og Haukar ekki nægilega grimmir að refsa þeim en það er alveg augljóst að KR-ingum liður ekki eins vel inná vellinum og Haukamönnum... 13:19

2:45 - Haukar hafa spilað frábæran varnarleik og KR-ingar hafa aðeins getað kroppað stig á töfluna, aldrei almennilega náð áhlaupi eða frábærri sókn! Helgi skorar úr vítum en þessi leikur Hauka virðist hafa komið KR úr jafnvægi í fyrsta leikhluta! 9:17

3:39 - Kári keyrir á Darra og skorar! Svakalegur þessi piltur!!! Kemur sínum í 7:17 stöðu sem neyðir Finn þjálfara KR til að taka leikhlé og fara yfir málin... 

4:00 - Finnur Atli er með 2 villur og sú síðari klárlega úr ævintýralandi! Kári smellir þá bara þrist og kemur sínum í meiri forystu! 7:13

5:05 - Helgi Már sækir villu og fer á línuna... mjög vel gert! 7:8

5:20 - KR-ingar hafa byrjað aðeins afslappaðri en það gengur hinsvegar lítið hjá þeim í sókninni. Haukar eru aðeins beittari og varnarleikurinn nokkuð traustur. 6:8 

7:30 - Kári Jónson keyrir og skorar... mjög vel gert og Craion kom engum vörnum við! 2:4

8:40 - Haukar skora á undan... KR búið að klikka úr þremur skotum í upphafi.... 0:2

Leikur hafinn! 

19:13 - Það er hægt að velta sér óendanlega uppúr þessari rimmu liðanna en tíminn leyfir mér ekki að fara djúpt í slíka sálma en læt nægja að segja að það sem skiptir Haukana mestu máli í kvöld er að mæta þannig að KR finni fyrir þeim, ef það gerist ekki munu KR-ingum líða mun betur í næsta leik og það gæti stafað vandræði fyrir Haukana, sem einfaldlega verða að halda sínum heimavelli óskertum fyrir ágangi vesturbæinga. Það þýðir ekkert annað fyrir Haukana að koma grjótharða, fulla af testósterum og nægilega hugrakka til þess að negla sinn mann og negla sínum skotum niður. Ef KR finnur slíka aðkomu munu þeir vissulega reisa sinn leik en þeir munu ekki finna það að þeir geti valta yfir Haukana... Hugarfarið er allt í svona rimmu, þetta vita KR, ekki Haukar og ef þeir komast ekki að þessu í fyrsta leik gæti serían verið búinn fyrir þá...

19:03 - Ég viðurkenni það, stemningin og áhuginn fyrir leiknum er klárlega meiri í þjóðfélaginu sjálfu en hægt er að segja að endurspeglist hérna í húsinu, sem skortir klárlega áhorfendur beggja liða. Húsið sjálft er fullt en bekkir við sitthvorn enda vallarins eru það ekki og virðast ekki ætla að fyllast, ég játa nokkur vonbrigði en finnst líklega skýringa að eitthvað annað sé að gerast sem hindrar fólk að láta sjá sig á vellinum. Þetta mun hinsvegar ekki hafa mikil áhrif á leik liðanna held ég og við höldum ótrauð áfram með einungis þessa rúmlega 1000 áhorfendur sem hingað eru komnir. 

18:53 - Jæja, loksins komið að sjálfum úrslitunum! Fólk er klikkað spennt yfir þessari seríu og þar liggja margar ástæður að baki. Úrslitakeppnin í körfubolta er alltaf hin besta skemmtun og núna eru tvö lið að berjast sem hægt er að sammælast um að séu þau bestu á landinu og liðið sem vinnur það besta. Haukar hafa ekki verið í þessari stöðu síðan 1993 og því um stórviðburð að ræða fyrir Hafnfirðinga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert