Olnboginn fór ansi hátt og langt út

Brynjar Þór Björnsson með boltann í leiknum við KR í …
Brynjar Þór Björnsson með boltann í leiknum við KR í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

„Þeir spila mjög líkamlega og fast, og ég held að þeir þoli okkur ekki og við þolum þá ekki. Það verður gríðarleg barátta í leik tvö,“ sagði Brynjar Þór Björnsson sem átti mjög góðan leik fyrir KR í sigrinum á Haukum í kvöld, í fyrsta leik úrslitarimmunnar um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta.

KR vann leikinn af öryggi, 91:61, og skoraði Brynjar 20 stig. Þónokkur hiti var þó í leikmönnum og upp úr sauð í þriðja leikhluta í sókn Hauka þegar Finnur Atli Magnússon slæmdi olnboga í höfuð Brynjars. Darri Hilmarsson var fljótur á vettvang og hrinti Finni, en þeir fengu svo báðir óíþróttamannslega villu.

„Hann [Finnur Atli] er að verja sig, en ég var reyndar ekkert það nálægt honum. Mér fannst olnboginn fara ansi hátt og ansi langt út, og hann smellhitti mig í kjálkann. Sem betur fer er maður með góm til að halda tönnunum þarna,“ sagði Brynjar.

„Ég var mjög ánægður með Darra að styðja mig í þessu. Hann sá alveg hvað gerðist og ástæðan fyrir því að hann brást svona við, með því að ýta honum, er að honum fannst þetta greinilega ljótt brot,“ bætti hann við.

Þrír frábærir leikhlutar

KR-ingar mega vera ánægðir með sína spilamennsku í kvöld en eins og fyrr segir var sigurinn í höfn löngu áður en flautað var til leiksloka:

„Fyrsti leikhluti var hræðilegur en síðustu þrír leikhlutarnir frábærir. Við spiluðum sem lið þá og vorum virkilega sterkir andlega,“ sagði Brynjar.

„Við spiluðum fantavörn og höfum gert það í allan vetur. Þegar við komum liðunum aðeins úr jafnvægi þá eiga þau erfitt með að skora gegn okkur,“ bætti hann við. Brynjar og félagar ætla sér að vinna titilinn þriðja árið í röð og þekkja vel hvað þarf til:

„Staðan er 1:0 og síðustu þrjú skipti höfum við unnið frekar stórt í fyrsta leik en alltaf verið frekar flatir í leik tvö og tapað. Núna er kominn tími til að breyta því og vinna á Ásvöllum á föstudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert