45 stig Helenu í sigri Hauka

Hart barist á Ásvöllum í kvöld.
Hart barist á Ásvöllum í kvöld. mbl/Styrmir Kári

Haukar og Snæfell mættust í öðrum leik liðanna í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik á Ásvöllum í Hafnarfirði. Haukar höfðu betur 82:74 eftir framlengdan leik og eru þá 2:1 yfir í rimmunni. 

Haukar geta því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Stykkishólmi á sunnudaginn en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. 

Leikurinn var æsispennandi undir lok venjulegs leiktíma. Snæfell hafði verið með forskotið lengst af en Haukum hafði þó tekist að jafna án þess að komast yfir. Helena Sverrisdóttir jafnaði af harðfylgi þegar aðeins 3 sekúndur voru eftir. Alls skoraði hún 45 stig í leiknum þrátt fyrir að hafa glímt við meiðsli að undanförnu.

Í framlengingunni náðu Haukar strax frumkvæðinu og Snæfelli tókst ekki að svara því nægilega vel. Þá fóru villuvandræði einnig að hafa áhrif á varnarleik Snæfells en nokkrir leikmanna liðsins voru þá með 4 villur.  

Snæfell náði mest tólf stiga forskoti í þriðja leikhluta og virtist líklegra til að vinna í venjulegum leiktíma en nýtti ekki tækifærið. Liðið þarf nú að vinna næsta leik á heimavelli til að knýja fram oddaleik á Ásvöllum. Haiden Palmer var stigahæst hjá Snæfelli með 33 stig. 

40+5 mín: Leiknum er lokið með sigri Hauka 82:74. Haukar lönduðu sigrinum nokkuð örugglega á lokamínútunni. 

40+4 mín: Staðan er 77:74 fyrir Hauka. Helena skorar enn eina körfuna. Haukar virðast miklu líklegri í framlengingunni. 

40+2 mín: Staðan er 73:72 fyrir Hauka. Haukar komast yfir í fyrsta skipti síðan í 1. leikhluta. Gunnhildur svarar með þriggja stiga körfu og minnkar muninn niður í eitt stig. 

40. mín: Venjulegum leiktíma er lokið. Framlengja þarf leikinn. Gunnhildur reyndi að komast upp að körfunni en hitti ekki. Þvílíkur lokakafli. 

40. mín: Staðan er 69:69. Snæfell missti boltann strax. Illa gekk að koma innkastinu í leik. Sending á Bryndísi endaði út af. Eggert dæmdi Haukum boltann og vildi meina að boltinn hafi farið síðast af Bryndísi. Eggert í sviðsljósinu undir lok leiksins. Helena braust í gegn og skoraði á ótrúlegan hátt. Hefði kannski átt að fá villu að auki. 3 sek eftir. 

40. mín: Staðan er 69:67 fyrir Snæfell. Helena reyndi að komast að körfu Snæfells við endalínuna en Eggert Aðalsteins dæmir boltann af Haukum og segir Helenu hafa stigið út af. Snæfell með boltann. 10 sek eftir. Leikhlé. 

40. mín: Staðan er 69:67 fyrir Snæfell. Palmer kemst í gegnum miðja vörn Hauka og leggur boltann ofan í. Haukar taka leikhlé. Með boltann og 15 sekúndur eftir. 

39. mín: Staðan er 67:67. Pálína jafnar. Fimm stig í röð hjá Haukum því Helena setti niður þrist, spjaldið og ofan í. Nánast slétt mínúta eftir. 

38. mín: Staðan er 65:62 fyrir Snæfell. 2 mínútur og 19 sek eftir. Haukar með boltann og taka leikhlé. Helena náði í þrjú stig og minnkaði niður í eitt stig en Palmer svaraði með laglegu stökkskoti. Helena með 33 stig og Palmer 29 stig. 

35. mín: Staðan er 58:54 fyrir Snæfell. Pálína var að setja niður þrist. Munurinn aðeins fjögur stig og fimm mínútur eftir. 

32. mín: Staðan er 54:46 fyrir Snæfell. Góð rispa hjá Hólmurum í upphafi síðasta leikhlutans. 6:0 sprettur. Gunnhildur var að skora og er komin með 12 stig. Ingi Þór fagnar vel á hliðarlínunni. Nú þurfa Haukar að bregðast við. 

30. mín: Staðan er 48:46 fyrir Snæfell. Haukum tókst að jafna 46:46 og fékk liðið tækifæri til að komast yfir en tókst ekki. Allt opið eftir þessa rispu Hauka og síðasti leikhlutinn verður vonandi spennandi. Hólmarar hafa ef til vill áhyggjur af villunum. Engin reyndar með fjórar en Gunnhildur, Berglind og Alda eru með þrjár en Palmer og Bryndís með tvær. Minna áhyggjuefni fyrir Hauka en þar er Pálína þó með þrjár, en Jóhanna og Auður með tvær. 

28. mín: Staðan er 46:42 fyrir Snæfell. Snæfell tekur leikhlé. Hafnfirðingar eru ekki búnir að vera. Pálína var að skora sín fyrstu stig fyrir Hauka í leiknum og gerði það með því að setja niður þrist um það bil tveimur metrum fyrir utan línuna. Frábær karfa og kveikir í Haukum. Áður hafði Jóhanna náð í þrjú stig, karfa + víti, og Dýrfinna skoraði úr hraðaupphlaupi. Skyndilega eru fleiri leikmenn komnir í takt við leikinn hjá Haukum. 

26. mín: Staðan er 44:34 fyrir Snæfell. Bryndís setti niður þriggja stiga skot og náði tólf stiga forskoti en Jóhanna minnkaði muninn aftur með því að setja niður tvö víti. Jóhanna er að reyna að berjast og er nýbúin að verja skot með tilþrifum en það breytir ekki því að enn sem komið er er aðeins einn leikmaður Hauka heitur hvað sóknina varðar. 

23. mín: Síðari hálfleikur er hafinn. Staðan er 41:30 fyrir Snæfell. Stigaskorið hefur tekið smá kipp í upphafi síðari hálfleiks. Fleiri láta nú til sín taka í stigaskorun en Gunnhildur og Bryndís hafa báðar skorað í upphafi þriðja leikhluta. Liðin hljóta að reyna að koma fleiri leikmönnum inn í leikinn í sókninni. 

Haiden Palmer og Auður Ólafsdóttir berjast um boltann í leik …
Haiden Palmer og Auður Ólafsdóttir berjast um boltann í leik liðanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

20. mín: Fyrri hálfleik er lokið. Staðan er 32:26 fyrir Snæfell. Mikill barningur í fyrri hálfleik og minna um fallegan körfubolta. En þannig er því bara oft farið í mikilvægustu leikjunum og hér í kvöld er mikið undir. Hólmarar eru nú með frumkvæðið. Hrósa má liðunum fyrir varnarleikinn og ekki virðist vera í spilunum að annað hvort liðið geti tekið mikla rispu sem gerbreyti stöðunni. Helena er með 17 stig og Palmer 15 stig. Flott hjá þeim en spurning hvort það sé á kostnað annarra leikmanna því engin annar leikmaður er heitur. Gunnhildur er með 5 stig, Bryndís og Berglind 4 og Auður Íris 3. Aðrir minna. 

15. mín: Staðan er 22:18 fyrir Snæfell. Hólmarar með naumt forskot. Helena skoraði fallega körfu og er komin með 12 stig. 

12. mín: Staðan er 20:16 fyrir Snæfell. Annar leikhluti fer frekar rólega af stað í stigaskorun en baráttan og átökin eru fyrirferðameiri. Haukunum hefur gengið illa að skora síðustu mínúturnar. 

10. mín: Staðan er 18:15 fyrir Snæfell. Fyrsta leikhluta er lokið. Gunnhildur kom Snæfelli yfir með laglegri þriggja stiga körfu 14:12. Leikurinn í járnum eftir fyrsta fjórðung og mikil barátta framundan. 

8. mín: Staðan er 12:11 fyrir Hauka. Helena er mjög ágeng í sókninni og beitir sér af fullum krafti þrátt fyrir meiðslin. Stefnir í stórar tölur hjá bæði henni og Palmer. Helena er með 8 stig og Palmer 9 stig. 

5. mín: Staðan er 8:6 fyrir Hauka. Leikurinn er mjög jafn til að byrja með. Taugaveiklun til staðar eins og gefur að skilja í upphafi leiks og leikmenn beggja liða hafa brennt af góðum færum. 

1. mín: Leikurinn er hafinn. Helena byrjar inn á og gerir fyrstu körfuna. Palmer svarar að bragði og eru þá helstu skorarnir strax búnar að stimpla sig inn. 

Lið Hauka: Sólrún Inga Gísladóttir, Þóra Kristín Jónsdóttir, Helena Sverrisdóttir, Shanna Dacanay, Auður Íris Ólafsdóttir, Rósa Björk Pétursdóttir, Sylvía Rún Hálfdánardóttir, Dýrfinna Arnardóttir, María Lind Sigurðardóttir, Hanna Þráinsdóttir, Pálína María Gunnlaugsdóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir.

Lið Snæfells: Andrea Björt Ólafsdóttir, Haiden Denise Palmer, Sara Diljá Sigurðardóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, Rebekka Rán Karlsdóttir, Erna Hákonardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Alda Leif Jónsdóttir, Hugrún Eva Valdimarsdóttir, María Björnsdóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir. 

Staðan er í rimmunni er 1:1 og hafa liðin unnið sitt hvorn heimaleikinn. Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. Snæfell er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari en Haukar sigruðu í deildakeppninni og eiga heimaleikjaréttinn ef til hans kemur. 

Haukar unnu fyrsta leikinn 65:64 á Ásvöllum en Snæfell vann annan leikinn 69:54 í Hólminum.

Kl 19:00. Korteri fyrir leik eru áhorfendur að streyma í húsið. Vel er mætt hjá Hólmurum sýnist mér enda heppilegt að leggja land undir fót á almennum frídegi. 

Kl 18:40. Helena Sverrisdóttir tekur fullan þátt í upphitun Haukaliðsins að því er virðist og er því líkleg til að beita sér í leiknum í kvöld. Hún missti af síðasta leik í Stykkishólmi eftir að hafa orðið fyrir meiðslum í fyrsta leik liðanna í Hafnarfirði. 

Gera má ráð fyrir mikilli baráttu í leik númer þrjú.
Gera má ráð fyrir mikilli baráttu í leik númer þrjú. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert