Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var svekktur yfir því að missa leikinn gegn Haukum í framlengingu á Ásvöllum í kvöld þegar fjölmiðlamenn ræddu við hann.
„Við vorum með tvö stig upp og innkast á hliðarlínunni en það var bara illa sett upp leikkerfi hjá mér,“ sagði Ingi meðal annars og vísaði þar til þess þegar Snæfell átti innkast þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum en tapaði boltanum og Helena Sverrisdóttir jafnaði 69:69 þegar 3 sekúndur voru eftir og knúði fram framlengingu.
Alls skoraði Helena 45 stig fyrir Hauka. „Hún var mjög góð hérna í dag og bar algerlega af en mér fannst Snæfellsliðið svara á öllum vígstöðvum. Við vorum að fá körfur úr öllum áttum og það er akkúrat sá körfubolti sem við viljum spila. Sorglegt að við skulum ekki hafa náð að klára þetta fyrir framan alla þessa áhorfendur úr Hólminum.“
Viðtalið við Inga í heild sinni er að finna í meðfylgjandi myndskeiði.