KR einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum

Það er hart barist á Ásvöllum í kvöld.
Það er hart barist á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Þórður

KR sigraði Hauka, 88:82, í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi Dominos-deildar karla í körfuknattleik á Ásvöllum í kvöld. Staðan í einvígi liðanna er 2:0 fyrir KR en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari.

Íslandsmeistararnir úr Vesturbænum byrjuðu leikinn af krafti og léku sterka vörn. Heimamenn virkuðu ráðlausir í sóknarleiknum en staðan að loknum fyrsta leikhluta var 21:12 fyrir KR. Mobley skoraði 9 af 12 stigum Hauka í leikhlutanum en heimamenn söknuðu greinilega leikstjórnandans Kára Jónssonar. Kári er meiddur og lék ekki með Haukum í kvöld.

Annar leikhluti hófst svipað og sá fyrsti og KR-ingar héldu góðu forskoti. Heimamenn enduðu fyrri hálfleikinn hins vegar frábærlega, unnu síðustu fimm mínúturnar 15:5 og jöfnuðu metin. Heimamenn gátu helst þakkað Finni Atla fyrir það en hann fór á kostum öðrum leikhluta, skoraði 12 stig og dreif sína menn áfram. Staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik jöfn, 37:37.

Haukar hófu síðari hálfleikinn af krafti og voru sterkari í þriðja leikhlutanum. Heimamenn voru tveimur stigum yfir að honum loknum, 62:60.

Haukar byrjuðu síðasta leikhlutanum betur og voru skrefinu á undan fyrstu mínúturnar. Þegar um fimm mínútur voru til leiksloka skoraði Kristinn Jónasson fallega þriggja stiga körfu og Mobley bætti tveimur við og forysta Hauka fimm stig, 71:66.

KR-ingar svöruðu því með sjö stigum á örskammri stundu og komust yfir. Íslandsmeistararnir litu ekki um öxl eftir það og tryggðu sér að lokum sigur, lokatölur 88:82. KR-ingar geta þar með tryggt sér þriðja Íslandsmeistaratitilinn í röð á mánudaginn í KR-heimilinu í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvíginu.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu:

Lið Hauka: Finnur Atli Magnússon, Gunnar Birgir Sandholt, Arnór Bjarki Ívarsson, Gunnar Heiðar Valentínusson, Hjálmar Stefánsson, Haukur Óskarsson, Kristinn Jónasson, Kristinn Marinósson, Jón Ólafur Magnússon, Emil Barja, Ívar Barja, Brandon Mobley.

Lið KR: Brynjar Þór Björnsson, Arnór Hermannsson, Ólafur Þorri Sigurjónsson, Michael Craion, Björn Kristjánsson, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, Helgi Már Magnússon, Snorri Hrafnkelsson, Jón Hrafn Baldvinsson, Darri Hilmarsson, Vilhjálmur Kári Jensson, Pavel Ermolinskij.

40. 82:88 Leiknum er lokið með sigri KR!

40. 80:87 Haukar skoruðu eftir mikinn atgang og brutu svo strax á Helga sem setur niður tvö víti. 22 sekúndur eftir.

40. 78:85 Helgi setur tvö víti niður. 35 sekúndur eftir.

40. 78:83 Haukur með þrist!

39. 75:83 Rúmlega mínúta eftir. KR fimm stigum yfir og með boltann. Darri með RISA þrist, kemur KR í átta stiga forystu þegar 1:07 eru á klukkunni.

37. 75:78 Mobley jafnar en Craion svarar hinum megin. Brynjar setur síðan risa þrist og KR skyndilega í góðum málum. Moble svarar, þriggja stiga munur.

36. 71:73 Skjótt skipast veður í lofti! KR-ingar skora sjö stig í röð og komast yfir.

35. 71:66 Mobley með fallegt stökkskot en rétt áður hafði Kristinn Jónasson sett niður þrist. Það fellur flest með Haukum þessa stundina.

32. 64:63 Brynjar „þristur“ var að setja niður rosalegan þrist úr horninu.

30. 62:60 Þriðja leikhluta er lokið og heimamenn hafa tveggja stiga forskot. Mobley er stigahæstur Hauka með 20 stig en Craion er með 19 í liði KR. Það er slæmt fyrir Hauka að Mobley og Emil séu báðir komnir með fjórar villur. Brynjar Þór er reyndar kominn með fjórar hjá KR-ingum.

29. 62:58 Haukur Óskarss. var að setja niður lukku-þrist. Fór í hringinn, upp í loft og ofan í. Þeir telja jafnmikið!

26. 53:49 Liðin skiptast á að skora en Haukar eru skrefinu á undan. Pavel var að tapa boltanum, virðast vera eitthvað mislagðar hendur í kvöld.

24. 46:45 Craion setur körfu og víti að auki. Þetta er enginn munur auðvitað! 

23. 44:42 Haukar byrja síðari hálfleikinn betur, stemningin virðist öll þeirra megin.

20. 37:37 Fyrri hálfleik er lokið og staðan er jöfn. Haukarnir enduðu annan leikhlutann frábærlega og hafa jafnað. Finnur Atli fór hamförum í öðrum leikhluta, skoraði 12 stig í leikhlutanum og er kominn með 15 stig alls. Finnur er stigahæstur heimamanna. Það vakti athygli mína að Finnur Atli skoraði flest stigin sín vinstra megin á vellinum. Michael Craion er stigahæstur gestanna með 12 stig en hann þarf að nýta vítin sín betur, er með 4 af 9 í vítum. Guðni Heiðar Valentínusson kom inn á síðari hluta annars leikhluta og hefur leikið frábæra vörn á Craion. 

19. 30:35 Finnur Atli með þriggja stiga körfu en hann er kominn með 10 stig í leikhlutanum. Nafni hans, Finnur Freyr, þjálfari KR, tekur leikhlé.

17. 27:35 Helgi setti þrist fyrir KR en bróðir hans, Finnur, svaraði með þremur stigur hinum megin á vellinum fyrir Hauka.

15. 22:32 Craion skorar körfu og fær vítaskot að auki, sem hann nýtir. KR-ingar halda heimamönnum í hæfilegri fjarlægð.

13. 18:27 Mobley hendir sér á eftir boltanum í baráttu og fær dæmda á sig villu. Hans þriðja í leiknum, sem er ekki gott fyrir Hauka.

12: 18:23 Emil Barja byrjar annan leikhlutann af krafti. Skoraði körfu, stal boltanum og skoraði strax aftur. KR-ingar tapa knettinum í næstu sókn og stuðningsmenn Hauka standa á fætur og fagna.

10. 12:21 Fyrsta leikhluta er lokið og KR er með níu stiga forskot. Brandon Mobley er kominn með 9 af 12 stigum Hauka en Finnur Atli setti niður eina þriggja stiga körfu rétt áðan. Aðrir leikmenn þurfa heldur betur að stíga upp. Brynjar Þór er kominn með 8 stig hjá KR, sem er að spila frábæra vörn.

9. 7:15 Mobley er enn sá eini sem kemst á blað hjá heimamönnum á meðan stigaskorið dreifist jafnar hjá Vesturbæingum.

7. 5:11 Mobley hittir úr einu af tveimur vítaskotum. Þess má geta að hann er kominn með öll fimm stig Hauka.

6. 4:11 Heimamönnum gengur bölvanlega að koma knettinum í körfuna. KR-ingar refsa og Ívar, þjálfari Hauka, tekur leikhlé.

2. 2:3 Darri kom KR yfir með þrigja stiga körfu og Mobley svaraði með tveimur stigum eftir nokkrar misheppnaðar sóknir á báða bóga.

1. Leikurinn er hafinn!

0. Hér er öllu til tjaldað. Ljósin slökkt þegar heimamenn eru kynntir, sem gerir það að verkum að það er erfiðara að sjá leikmennina!

0. Rúmlega tíu mínútur í að leikurinn hefjist. Áhorfendur streyma að og stemningin er að magnast í húsinu.

0. Kári Jónsson, besti leikmaður Hauka, hefur ekki náð sér af meiðslum sem hann varð fyrir í fyrsta leiknum í einvíginu. Eins og kom fram á mbl.is í morgun meiddist hann í ristinni og neyðist af þeim sökum til að fylgjast með leiknum í kvöld af hliðarlínunni. Þetta er gríðarleg blóðtaka fyrir Hauka. Kári situr á varamannabekknum í gráum joggingbuxum og fylgist með félögum sínum hita upp.

0. 40 mínútur í að leikurinn hefjist og það eru ekki margir mættir, fólk er vonandi bara lengi á leiðinni. Bóas, stuðningsmaður KR númer 1, er mættur og mun eflaust láta vel í sér heyra.

Michael Craion og Kristinn Jónasson berjast um boltann í fyrsta …
Michael Craion og Kristinn Jónasson berjast um boltann í fyrsta leik liðanna í Vesturbænum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert