„Ég vona bara að við verðum enn betri á fimmtudaginn. Það er enginn Haukamaður saddur. Við erum að fara í oddaleik á laugardaginn,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, eftir sigurinn á KR í úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.
Haukar unnu 79:77 eftir framlengdan leik og unnu sinn fyrsta sigur í einvíginu, en KR er 2:1 yfir og getur orðið Íslandsmeistari í Hafnarfirði á fimmtudagskvöld.
„Ég er ótrúlega stoltur,“ sagði Ívar eftir sigurinn í kvöld.
„Við erum að verða betri og betri, og að fá meira sjálfstraust. Við vorum skelfilega slakir í leik eitt, en í öðrum leiknum gerðum við hlutina mikið betur, vorum á réttum stöðum í varnarleiknum og óhræddari í sóknarleiknum. Í kvöld duttum við aðeins niður í sókninni í þriðja leikhluta, skoruðum ekki í fimm mínútur, en varnarleikurinn var alltaf frábær. Við vorum að hika í sókninni, fengum fín færi en tókum þau ekki strax. Við tókum leikhlé og fórum yfir þetta, menn eiga bara að skjóta á helvítis körfuna þegar þeir eru fríir. Þegar þeir gerðu það þá kom þetta,“ sagði Ívar. Það fór eflaust um hann eins og aðra í lok venjulegs leiktíma, áður en Finnur Atli Magnússon jafnaði metin með þriggja stiga skoti um leið og flautan gall:
Áttum aldrei að fara í þessa framlengingu
„Við náðum engu leikhléi. Þetta var bara frákast og við fórum bara fram, kannski sem betur fer af því að ef ég hefði teiknað eitthvað upp hefðum við aldrei hitt,“ sagði Ívar hlæjandi. „Þetta var bara ótrúlega flott skot hjá Finni, og hann gefur okkur stórkostlegt tækifæri með þessu skoti,“ sagði Ívar.
„En við áttum aldrei að fara í þessa framlengingu. Við klikkuðum í vörninni í lokin, gáfum Helga tvo galopna þrista þar sem það var misskilningur í vörninni, og það kom KR inn í leikinn,“ bætti Ívar við, og hann var vitaskuld ánægður með hvernig framlengingin spilaðist:
„Auðvitað var maður stressaður en maður hafði trú á strákunum fyrst við náðum í framlenginguna. Það er alltaf áfall fyrir lið að fá svona körfu á sig, eins og KR fékk, og þeir voru orðnir stressaðir og hættir að hitta úr stóru skotunum. Við spiluðum vel á Craion, brutum á honum þegar hann fékk boltann, og þetta heppnaðist bara mjög vel.“