„Mér fannst við fá tækifæri til að auka muninn enn frekar í þriðja leikhluta og gera muninn óyfirstíganlegan, en þeir gerðu bara vel í að koma tilbaka,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, eftir tapið gegn Haukum í úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.
KR tapaði í framlengdum leik, 79:77, en er enn yfir í einvíginu, 2:1, fyrir fjórða leik liðanna í Hafnarfirði á fimmtudagskvöld.
„Mér fannst við missa taktinn í stöðunni 53:41. Við vorum í fínum málum í leiknum en hleyptum þeim inn í leikinn í lok þriðja leikhluta. Ég rótera kannski svolítið hratt á þeim tímapunkti, það kom smáhik hjá okkur og þeir gengu á lagið,“ sagði Finnur.
Upp úr hjá Helga og ofan í hjá bróður hans
„Þegar upp er staðið er þetta auðvitað leikur tveggja góðra liða og við erum búnir að vinna þónokkuð marga leiki á svona skoti, eins og Finnur [Atli Magnússon] setti til að halda þeim á lífi. Það hlaut að koma að því að við yrðum á hinum enda borðsins einu sinni. En það er stutt á milli í þessu. Boltinn rúllaði upp úr körfunni hjá Helga [Má Magnússyni] en ofan í hjá bróður hans. Haukar eiga bara hrós skilið fyrir sína frammistöðu í dag,“ sagði Finnur, sem fór í framlenginguna án Darra Hilmarssonar og Pavels Ermolinskij sem höfðu fengið fimm villur hvor.
„Mér fannst bæði Bjössi og Snorri gera vel í framlengingunni. Snorri var að taka góð fráköst. Það hefði ekki mikið þurft að gerast til að við myndum vinna, en þetta datt svona,“ sagði Finnur, sem virðist ekki reikna með því að vonbrigði kvöldsins muni sitja í mönnum:
„Þetta er bara eins og gengur og gerist. Það tekur smátíma að jafna sig en í fyrramálið verða allir einbeittir og klárir í æfingu þar sem við setjum upp nýtt plan og skoðum hvað við hefðum getað gert betur í þessum leik. Við mætum klárir á fimmtudaginn.“