Þetta var mjög skrýtin sókn

Emil Barja og Brandon Mobley í baráttu við Snorra Hrafnkelsson.
Emil Barja og Brandon Mobley í baráttu við Snorra Hrafnkelsson. Styrmir Kári

Haukar unnu 79:77 eftir framlengdan leik og minnkuðu muninn í 2:1 í einvíginu. Finnur Atli Magnússon jafnaði metin í blálokin á venjulegum leiktíma, með þriggja stiga körfu:

„Þetta var ekki það sem Ívar teiknaði upp. Þetta var mjög skrýtin sókn hjá okkur,“ sagði Emil léttur, aðspurður um lokasóknina. „En við vorum allir tilbúnir í þetta og það var hver sem er að fara að setja þetta skot, sama þótt það væri maður í okkur,“ sagði Emil, sem virtist líða ágætlega í framlengingunni:

„Eftir þetta skot þá þurftum við bara að klára dæmið, það var ekkert annað í boði. Við spiluðum bara áfram okkar leik, börðum á þeim og náðum í sigur.“

Höfum byggt okkur upp með hverjum leik

Haukar töpuðu illa í DHL-höllinni í fyrsta leik einvígisins en það var allt annað að sjá til þeirra í kvöld:

„Fyrsti leikurinn var bara lélegur hjá okkur. Við vorum ekki tilbúnir, létum þá ýta okkur og pirra okkur. Annar leikurinn var mun betri og mér fannst þetta vera framhald af honum. Við höfum byggt okkur upp með hverjum leik og verðum stórhættulegir í næsta leik,“ sagði Emil.

Haukar héldu vel aftur af Michael Craion, sérstaklega í fjórða leikhlutanum:

„Þetta er gríðarlega sterkt hjá okkur. Við erum með fjóra turna í liðinu, tveggja metra menn og það getur hver sem er þeirra stigið upp. Guðni [Heiðar Valentínusson] er til dæmis búinn að vera hrikalega góður í síðustu tveimur leikjum. Svo verð ég að hrósa Haukamaníunni. Þetta eru algjörir snillingar. Við höldum bara áfram og það eru tveir sigurleikir eftir hjá okkur,“ sagði Emil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert