„Ég er virkilega ánægð með þetta og mér fannst við eiga sigurinn skilinn. Við spiluðum ofboðslega vel, hættum aldrei og gáfumst aldrei upp. Þær gerðu áhlaup í upphafi þriðja leikhluta, en trú okkar á því að við myndum vinna gerði það að verkum að við erum Íslandsmeistarar,“ sagði Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði Snæfells, þegar mbl.is truflaði hana í miðjum fagnaðarlátum eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Dominos-deild kvenna með 67:59 sigri sínum gegn Haukum í oddaleik í úrslitaeinvígi liðanna í Schenker-höllinni í kvöld.
„Það var sterkur varnarleikur sem skilaði þessum sigri að mínu mati. Við mættum flatar í fyrsta leikinn og töpuðum eftir framlengingu í þriðja leiknum. Það var kominn tími á að vinna þær á útivelli og við vorum staðráðnar í að vinna og tryggja okkur titilinn. Við spiluðum frábæra vörn og það gaf okkur sjálfstraust á hinum enda vallarins,“ sagði Gunnhildur aðspurð um hver hefði verið lykillinn að sigri Snæfells.
„Við spiluðum í kvöld fyrir framan bestu stuðningsmenn í heimi. Það er allur Stykkishólmur mættur og þeir sem komumst ekki eru heima að fygljast með. Afi er til að mynda límdur við skjáinn að horfa á leikinn. Þetta er geggjað og það gefur okkir mikinn styrk. Stuðningurinn í gegnum úrslitakeppnina hefur verið frábær og stuðningnsmenn okkar eiga stóran þátt á þessum sigri,“ sagði Gunnhildur um þann stuðning sem liðið fékk í kvöld og í úrslitakeppninni allri.