Fékk gæsahúð þegar ég labbaði inn

Leikmenn Snæfells fagna Íslandsmeistaratitlinum.
Leikmenn Snæfells fagna Íslandsmeistaratitlinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hún er alltaf jafn sæt sú tilfinning að takast að verða Íslandsmeistari. Tilfinningin er eins og að eignast barn. Ég á þrjú börn með konunni og það er alltaf jafn yndislegt og tilfinningin er álíka þegar þú verður Íslandsmeistari,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna með 67:59 sigri gegn Haukum í oddaleik í úrslitaeinvígi liðanna í kvöld.  

„Það var ofboðslega góð samvinna í liðinu, samstaða og Snæfellshjartað sem skilaði þessum sigri. Við bættum okkur með hverjum leik í þessu einvígi að mínu mati. Við erum að spila á mjög erfiðum útivelli, en fáránlega góður stuðningur stuðningsmanna okkar varð til þess að okkur leið eins og við værum á heimavelli,“ sagði Ingi Þór um frammistöðu Snæfellsliðsins og stuðningsmanna liðsins í einvíginu og í kvöld. 

„Þeir einstaklingar sem hafa lagt gríðarlega mikla vinnu í að skapa góða umgjörð í kringum liðið eiga mikið hrós skilið og þeir eru að uppskera eins og þeir hafa sáð. Ég fékk sjálfur gæsahúð þegar ég labbaði inn í húsið og sá troðfulla stúku okkar megin. Það var fullt í þær rútuferðir sem skipulagðar voru og þetta er ótrúlegt afrek hjá 1100 manna bæjarfélagi. Mér líður svakalega vel í Hólminum, ég er með tveggja ára samning og er ekki að fara neitt,“ sagði Ingi Þór fullur aðdáunar og þakklætis í garð stuðningsmanna Snæfells.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert