Allir þeir sem fullyrtu að KR myndi vinna Hauka 3:0 í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik hljóta að hafa orðið undrandi í gærkvöldi þegar Haukar minnkuðu muninn í rimmunni í 2:1. Haukar náðu í sigur á útivelli, 79:77, eftir framlengdan leik og mikla dramatík.
Ég hef heyrt hjá nokkrum íþróttaáhugamönnum undanfarið að þeir hefðu ekki trú á því að Haukar myndu vinna leik eftir að Kári Jónsson, hæfileikaríkasti leikmaður þeirra, meiddist. Hvað þá að Haukar gætu orðið Íslandsmeistarar. Reyndar héldu einnig margir sem undirritaður ræddi við að KR myndi vinna Njarðvík 3:0 eftir fyrstu viðureign liðanna en það fór nú heldur betur á annan veg. Ef íþróttirnar væru svo fyrirsjáanlegar væri ekki jafn mikill áhugi á þeim og raun ber vitni.
Leikurinn í gærkvöldi undirstrikaði enn einu sinni hversu skemmtilegar úrslitakeppnirnar í íslensku vetraríþróttunum eru. Gærkvöldið var Haukum heilladrjúgt, en bæði karlalið félagsins, í körfubolta og handbolta, unnu mikilvæga framlengda leiki. Haukar eru í þeirri sérstöku stöðu að vera með fjögur lið á fullri ferð í úrslitakeppnunum í þessum tveimur greinum. Hvort það hefur áhrif á áhorfendafjöldann veit ég ekki en mér fannst ekki margir fylgja Hafnfirðingum í gærkvöldi miðað við að liðið er í úrslitum í fyrsta skipti í langan tíma. Kjarni stuðningsmanna þeirra lét þó vel í sér heyra.
Sjá greinina í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.