Íslandsbikarinn fer á loft í Schenker-höllinni að Ásvöllum í kvöld þegar Haukar og Snæfell mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik. Liðin hafa unnið sitt hvora tvo leikina í úrslitaeinvíginu og hafa allir leikirnir í því unnist á heimavelli.
Snæfell getur orðið Íslandsmeistari þriðja árið í röð en Haukar geta orðið Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í sjö ár og í fjórða skipti alls, en Haukarnir lyftu Íslandsbikarnum á loft 2006, 2007 og 2009.
Það má reikna með gríðarlegri spennu að Ásvöllum í kvöld og miklu fjölmenni, en íbúar Stykkishólms ætla að fjölmenna á úrslitaleikinn og Haukarnir munu örugglega fá öflugan stuðning frá stuðningsmönnum sínum.