„Líkurnar eru alla vega ekki 0%“

Finnur Atli Magnússon sækir að körfu KR en til varnar …
Finnur Atli Magnússon sækir að körfu KR en til varnar er Michael Craion. mbl.is/Styrmir Kári

Finnur Atli Magnússon knúði fram framlengingu í þriðja úrslitaleik KR og Hauka í kvöld þegar hann skoraði þriggja stiga körfu fyrir Hauka sekúndu fyrir lok venjulegs leiktíma gegn uppeldisfélagi sínu KR. 

„Þetta var frábært. Það eru ekki rosalega miklar líkur á því að það gangi upp hjá mér að drippla, taka „step back“og setja þrist niður en líkurnar eru alla vega ekki 0%. Ég er búinn að sanna það. Þetta gekk upp í dag,“ sagði Finnur í samtali við mbl.is og bætti því við að sér hafi fundist skotfærið vera nokkuð gott þegar hann tók ákvörðunina. „Mér fannst ég nánast vera opinn en hann (Snorri) hoppaði náttúrlega upp á móti mér en ég sá körfuna allan tímann.“

Finnur er uppalinn KR-ingur og á bróður í KR-liðinu, Helga Má, auk þess sem bróðir þeirra Guðmundur hefur verið viðloðandi starfið hjá KR. Finnur hefur áður mætt KR í úrslitakeppni og þá með Snæfelli en ekki í úrslitarimmunni sjálfri eins og núna. Finnur viðurkennir að hafa fundið mikinn mun á sér í kvöld miðað við fyrsta leikinn í Frostaskjólinu. „Fyrsti leikurinn var mjög skrítinn. Ég skal alveg viðurkenna það. Miklar tilfinningar og maður vissi ekki alveg hvernig átti að höndla þær. Það sýndi sig á vellinum því þá átti ég ekki góðan leik. Í öðrum leiknum náði ég aðeins að stýra þessu betur og nú er farið að síast inn að ég sé í úrslitum á móti KR.“

Finnur getur nú borið höfuðið hátt innan um gamla vini í KR en þar til í kvöld leit út fyrir að KR myndi vinna rimmuna 3:0. „Þegar staðan var orðin 2:0 þá lét ég ekki mikið sjá mig í kringum fjölskylduna. Ég var pirraður eins og maður á að vera í slíkri stöðu. Ég horfði á NBA um daginn og þá sögðu þulirnir að ef menn væru ekki orðnir pirraðir á hverjum öðrum í fjórða leik þá væri eitthvað að. Ég hugsaði með mér að þetta væri hárrétt. Ég horfði á bróður minn og sá bara mótherja. Ég kem til með að fara í heimsókn til hans til Washington í júlí en eins og stendur er hann ekki vinur minn. Helgi sagðist fyrirgefa mér þetta ef þeir ná titlinum.“

Spurður út í framlenginguna sagði Finnur það hafa skipt máli að Haukar hefðu jafnað og knúið fram framlenginguna. „Mómentið var með okkur og það skiptir miklu máli hvort liðið jafnar. Við vildum nýta okkur það auk þess sem Pavel og Darri voru farnir út af með 5 villur. KR hefur ekki notað Snorra og Þóri mikið og það sést stundum inni á vellinum því þeir eiga til að vera svolítið stressaðir. Við vissum að við þyrftum að nýta tækifærið fyrst KR gæti ekki notað tvo menn sem þeir vilja vera með inn á,“ sagði Finnur Atli Magnússon við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert