Niðurstaðan er mikil vonbrigði

Ingvar Guðjónsson, þjálfari Hauka.
Ingvar Guðjónsson, þjálfari Hauka. Eggert Jóhannesson

„Ég er auðvitað mjög svekktur. Við hittum ekki á góðan dag í sóknarleiknum. Við hittum illa og þetta var svolítið stöngin út hjá okkur og stöngin inn hjá þeim,“ sagði Ingvar Guðjónsson, þjálfari Hauka, eftir 67:59 tap liðsins gegn Snæfelli í oddaleik liðanna í úrslitaeinvígi liðanna í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. 

„Þær settu stór skot ofan í undir lokin og þar af leiðandi náðum við ekki að minnka muninn meira en raun bar vitna og komast yfir. Þegar við bættum sóknarleikinn okkar þá fengum við körfur í andlitið hinum megin,“ sagði Ingvar enn fremur.

„Ég er gríðarlega stoltur af leikmönnum mínum og þær hafa lagt mikið á sig í vetur. Við urðum Lengjubikarmeistarar í haust og deildarmeistarar í vor sem er vel af sér vikið. Við vildum hins vegar meira og því er þessi niðurstaða vonbrigði,“ sagði Ingvar um tímabilið í heild sinni hjá Haukum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert