Stuðningurinn gaf okkur auka orku

Haiden Denise Palmer með Íslandsmeistarabikarinn í höndunum.
Haiden Denise Palmer með Íslandsmeistarabikarinn í höndunum. Eggert Jóhannesson

„Þetta er yndislegt og sigurtilfinningin er ósvikin. Það er frábært að fagna með liðinu fyrir framan þessa frábæru áhorfendur eftir að hafa gefið allt sem við áttum í leikinn,“ sagði Haiden Denise Palmer sem var stigahæsti leikmaður Snæfells með 21 stig þegar liðið lagði Hauka að velli 67:59 í kvöld og tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna.

„Það var gríðarlega erfitt að reyna að halda Helenu [Sverrisdóttur] í skefjum og það útheimti mikla orku. Helena er allt í senn stór, sterk og hæfileikarík þannig að ég var dauðþreytt undir lokin, en þá fékk ég orku frá samherjum mínum og stuðningi frá stuðningsmönnum okkar,“ sagði Haiden Palmer sem kjörinn var mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik að leik loknum. 

„Við lögðum hart að okkur og það var samvinna liðsins sem færði okkur þennan sigur. Það voru allir leikmenn að leggja eitthvað að mörkum í vörninni og í sóknarleiknum. Við erum ofboðslega stolt af þessum árangri og við gátum varla gert annað en að vinna með stuðningsmenn okkar syngjandi allan leikinn,“ sagði Haiden Palmer um hvað hefði lagt grunninn að sigri Snæfells. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert