Ekki er útilokað að snjallasti körfuboltamaður landsins, Jón Arnór Stefánsson, láti staðar numið í atvinnumennskunni í sumar og flytji heim. Jón tjáði Morgunblaðinu að líkur væru á því að fjölskyldan flytti heim en hann ætlar þó að halda því opnu að halda áfram í atvinnumennskunni ef spennandi tækifæri býðst.
„Það er ekki leyndarmál að ég hef verið að velta því fyrir mér. Góðar líkur eru á því að ég komi heim en ég ætla samt sem áður ekki að loka neinum dyrum. Ég ætla bara að skoða mín mál eftir tímabilið,“ sagði Jón þegar Morgunblaðið bar þetta undir hann. Jón spilar nú með Valencia, sem er að berjast um 2. sætið í spænsku deildinni, og fram undan er úrslitakeppni. Samkeppnin er mikil í liðinu, sem og æfingaálagið.
„Ég var að vona að þessi þjálfari væri eitthvað rólegri, en álagið er enn meira en hjá Málaga í fyrra. Keyrslan á æfingum er svakaleg og ég er ekki viss um að ég geti verið áfram í slíkri keyrslu þar sem Evrópukeppni er til dæmis hluti af pakkanum. Ég er hins vegar í toppformi og er að spila í frábærum gæðaflokki í körfuboltanum. Ég er að spila ofboðslega vel og mér líður vel. Því væri kannski synd að taka ekki eitt ár í viðbót í atvinnumennskunni. Kemur það bara í ljós því ég er ekki búinn að ákveða neitt,“ útskýrði Jón, sem varla hefur misst úr æfingu eða leik í vetur. Er það með nokkrum ólíkindum, þar sem tappa þurfti vökva af hnjánum á EM í Berlín í september til að halda kappanum gangandi.
Nánar er rætt við Jón í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag