Helena Sverrisdóttir, besta körfuboltakona landsins, mun ekki leika með Haukum á komandi keppnistímabili. Helena og unnusti hennar, landsliðsmaðurinn Finnur Ingi Magnússon, eiga von á sínu fyrsta barni.
Helena staðfesti þessar fréttir við íþróttadeild mbl.is í dag og þar sagði hún jafnframt að hún kæmi til með að mæta aftur til leiks tímabilið 2017-2018.
Helena er af flestum talin besti leikmaður sem Ísland hefur átt í körfubolta kvenna. Hún kom heim til Hauka fyrir síðasta tímabil eftir áralanga dvöl í atvinnumennsku og lék frábærlega með uppeldisfélaginu. Fékk hún fullt hús stiga hjá álitsgjöfum Morgunblaðsins þegar blaðið stóð fyrir því að velja Úrvalslið Íslands í íþróttinni og var kynnt hinn 7. maí síðastliðinn.
Helena fagnaði deildarmeistaratitli með Haukum en þurfti að sætta sig við silfur í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn eftir spennandi viðureign gegn Snæfelli.
Hún var kosin leikmaður ársins en Helena skoraði 23,1 stig, tók 13,2 fráköst og gaf 7,5 stoðsendingar að meðaltali í Dominosdeildinni í fyrra.