Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfubolta, er á leið í speglun á hné vegna meiðsla sem gert hafa strítt honum síðustu árin. Jón mun ekki leika með Íslands- og bikarmeisturum KR næstu vikurnar og mánuðina af þessum sökum.
Jón staðfesti við mbl.is að hann sé á leið í aðgerð en hann hefur þó ekki fengið að vita dagsetninguna enn sem komið er. Jón segist að sjálfsögðu vonast til þess að geta byrjað sem fyrst að spila en segist ætla að vera skynsamur hvað það varðar. Hann vonast eftir því að geta beitt sér í desember og vera kominn af stað á vellinum fyrir jólafríið en segir erfitt að setja sér markmið í þeim efnum fyrr en hann veit hvenær aðgerðin verður framkvæmd.
„Það tekur tíma að ná sér góðum. Ég fór í speglun á Spáni fyrir nokkrum árum og þá var allt gert á tvöföldum hraða. Ég var þá kominn inn á völlinn eftir fjórar vikur en varð fljótlega slæmur í hnénu aftur. Við munum gefa okkur lengri tíma og gerum þetta vel. Tímabilið er langt og maður þarf að vera klókur en ég vona að ég geti spilað í desember.“
Hnéskelin orðin skökk
Jón segist hafa þurft að horfa á heildarmyndina og lokakeppni EM á næsta ári sé ekki eina ástæðan fyrir því að hann lætur nú gera við hnéð. Meiðslin hafa strítt honum í á þriðja ár en ekki hefur gefist svigrúm til að fara í aðgerð. Jón hefur ýmist hafa hnöppum að hneppa með sterkum félagsliðum á Spáni eða íslenska landsliðinu allra síðustu árin.
„Ég er búinn að fara í myndatökur og hnéskelin er orðin svolítið skökk. Hún skemmir brjóskið fyrir vikið. Hægt er að fara í aðgerð til að lyfta hnéskelinni og snúa henni en ekki til stendur til að gera það að svo stöddu. Þetta verður venjuleg speglun þar sem brjóskið er hreinsað og þá tekur við mikil sjúkraþjálfun. Með tilheyrandi styrkingu þá gæti hnéskin gengið aðeins til baka. Endurhæfingin verður því mjög mikilvæg áður en ég fer að hlaupa og spila. Auk þess er hnéð orðið slitið eftir öll þessi ár og lítið við því að gera. Eftir speglunina kemur betur í ljós hvernig staðan er. Ég þarf einnig að geta beitt mér í hinu daglega lífi án þess að bólgna upp og einhvern tíma síðar verður líklega gerð önnur aðgerð.“
Þreytandi að spila meiddur
Eitt af einkennum Jóns sem leikmanns frá því hann skilaði sér upp í meistaraflokk hefur verið hversu snöggur og kraftmikill hann hefur verið. Snerpa, stökkkraftur og sprengikraftur hafa verið þættir sem hann hefur getað nýtt sér til að komast í fremstu röð í Evrópu á sínum ferli. Jón er því skiljanlega orðinn þreyttur á því að spila meiddur ár eftir ár. „Síðustu tvö til þrjú árin hef ég verið haltur og ég vil losa mig við það. Ég vil geta beitt mér 100% og hjálpað KR-ingunum þannig að ég verði sá gaur sem þeir vilja að ég sé. Ég er einnig með landsliðið í huga og ég held að allir græði á því að ég fái núna tíma til að sinna þessu,“ sagði Jón og hann er greinilega mjög mótíveraður í því að aftur fyrri styrk.
„Ég stefni að því að vera í mínu besta formi þegar ég sný til baka. Ég set mikla pressu á sjálfan mig og er mjög gíraður. Ég veit að deildin verður erfið og við KR-ingar ætlum að standa okkur frábærlega,“ sagði Jón Arnór Stefánsson ennfremur í samtali við mbl.is.