„Þetta var ekki nógu gott hjá okkur. Við eigum að gera miklu betur,“ sagði Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur í samtali við mbl.is eftir 74:71 tap gegn Þór Þorlákshöfn á útivelli í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld.
Sjá: Þórsarar héldu haus gegn Keflvíkingum
Keflvíkingar eltu Þórsara nánast allan leikinn og gekk illa að koma boltanum að, og ofan í, körfuna.
„Sóknin var bara mjög slök hjá okkur, við vorum ekki nógu agressívir og gekk illa að koma boltanum inn í teiginn á Kanann. Svo voru skotin ekki að detta heldur og það vantaði bara miklu meiri kraft í okkur,“ sagði Hjörtur. Hann gat svo sem ekki hrósað varnarleiknum heldur.
„Vörnin var ekkert æðisleg heldur, hún var þokkaleg, en við hefðum átt að gera betur. Þetta var samspil tveggja þátta og ef það gengur illa bæði í sókn og vörn þá er það ekki líklegt að maður nái árangri.“
Þó að Þórsarar hafi haft frumkvæðið þá þjörmuðu Keflvíkingar að þeim á lokasprettinum og áttu möguleika á að knýja fram framlengingu í síðustu sókn sinni.
„Já, þetta var leikur í lokin en þetta var allt of seint hjá okkur. Við hefðum þurft að gera áhlaup mikið fyrr. Þórsurunum var spáð 4. sæti í vetur og þetta er erfiður útivöllur þannig að það er ekkert gefið að koma hingað og vinna. Við vissum að þetta yrði hörkuleikur, sem þetta var. Það vantaði bara herslumuninn hjá okkur,“ sagði Hjörtur að lokum.