Hinn 19 ára gamli Andrée Fares Michelsson vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í síðasta leik Snæfells í Dominos-deildinni í körfubolta. Fátítt er að svo ungur leikmaður skori yfir 30 stig í leik en Andrée gerði 34 stig í besta leik Snæfells á tímabilinu, gegn Skallagrími síðasta fimmtudag, sem þó tapaðist að lokum í framlengingu.
Þar til í sumar hafði Andrée búið alla sína tíð í Malmö í Svíþjóð. Hann hefur hins vegar sterka taug til Íslands, og íslenskt ríkisfang, því móðir hans er íslensk; Hulda Georgsdóttir. Faðir hans er frá Sýrlandi; Michel Kizawi. Sem hálfur Íslendingur átti Andrée möguleika á að spila fyrir Íslands hönd og valdi Einar Árni Jóhannsson hann í U18-landslið Íslands árið 2014. Þá hafði Andrée reyndar þegar leikið fyrir hönd Svíþjóðar, en eftir að hafa kynnst strákunum í íslenska landsliðinu hefur hann ekki verið í vafa um að hann vilji klæðast blárri Íslandstreyjunni í stað þeirrar gulu.
„Ég spilaði líka fyrir sænska landsliðið en þar var ekki sama stemning og í íslenska landsliðinu. Það var mikið skemmtilegra að spila fyrir Ísland, því hér voru allir eins og eitt lið. Menn hlógu, borðuðu og skemmtu sér saman. Ég kann mjög vel við það,“ sagði Andrée, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í vinnuna í veitingastaðnum Skúrnum í Stykkishólmi.
Ítarlegt viðtal við Andrée má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.