Carmen allt í öllu í sigri Njarðvíkur

Carmen Tyson-Thomas var stigahæst í liði Njarðvíkur með 39 stig …
Carmen Tyson-Thomas var stigahæst í liði Njarðvíkur með 39 stig og Dýrfinna Arnardóttir var atkvæðamest í liði Hauka með 16 stig. Árni Sæberg

Njarðvík vann mikilvægan 74:73 sigur þegar liðið mætti Haukum í 14. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta í Schenker-höllinni í kvöld. Njarðvík fjarlægðist fallsvæðið með þessum sigri, en liðið hefur 12 stig og er sex stigum frá fallsæti eftir þennan sigur og fjórum stigum frá sæti í úrslitakeppni. Haukar eru hins vegar enn á botni deildarinnar með sex stig. 

Njarðvík hafði frumkvæðið lungann úr leiknum, en Haukar náðu þó góðum köflum inn á milli og hefðu þeir kaflar varað aðeins lengur hefði niðurstaðan getað orðið önnur. Dýrfinna Arnardóttir og Rósa Björk Pétursdóttir voru öflugastar í sóknarleik Hauka, en Dýrfinna skoraði 16 stig og Rósa Björk 15 stig. Sólrún Inga Gísladóttir kom síðan næst hjá Haukum með 14 stig, en hún skoraði tvær þriggja stiga körfur sem kveiktu líf í leik Hauka.  

Carmen Tyson-Thomas var hins vegar einu sinni sem oftar langbesti leikmaður vallarins, en hún skoraði 40 stig í leiknum auk þess að taka fjölmörg fráköst, verja þó nokkur skot og stela töluvert af boltum. Carmen tók til sinna ráða í hvert skipti sem Haukar söxuðu að einhverju ráði á forskot Njarðvíkur í leiknum. 

Haukar eiga skilið mikið hrós fyrir að gefast aldrei upp þrátt fyrir erfiða stöðu í leiknum og mörg lið sem eru í sömu stöðu og Haukar hefðu brotnað við það að ná ekki að brúa mun andstæðinganna.

Njarðvík innbyrti hins vegar mikilvægan sigur sem gefur liðinu andrými frá fallbaráttunni og leyfir liðinu að láta sig dreyma um sæti í úrslitakeppninni. Njarðvík er fjórum stigum á eftir Stjörnunni sem situr í fjórða sæti deildarinnar sem veitir síðasta sætið í úrslitakeppninni.  

40. Leik lokið með 53:57 sigri Hauka/Njarðvíkur. Carmen Tyson-Thomas var munurinn á milli liðanna i þessum leik. Carmen skoraði meira en helming stiga Njarðvíkur eða 40 stig. 

30. Haukar - Njarðvík, 53:57. Anna Lóa jafnaði metin í 51:51 undir lok leikhlutans og þetta er í fyrsta skipti sem staðan er jöfn síðan í stöðunni 18:18 í upphafi annars leikhluta. Haukar fóru í kjölfarið illa að ráði sínu og Njarðvík náði fjögurra stiga forskoti. Carmen er enn stigahæsti leikmaður vallarins, en hún hefur skorað 30 stig fyrir Njarðvík. Þóra Kristín og Sólrún Inga eru komnar með þrjár villur hjá Haukum. Heiða Björg og Linda Þórdís eru báðar komnar með fjórar villur hjá Njarðvík. Aðrir leikmenn hafa fengið færri villur. 

20. Haukar - Njarðvík, 28:37. Sólrún Inga varð fyrsti leikmaðurinn í liði Hauka fyrir utan Rósu Björk og Dýrfinnu sem skorar stig fyrir liðið þegar hún jafnaði metin í 18:18 með þriggja stiga körfu. Eftir það kom slæmur kafli hjá Haukum og Njarðvík náði átta stiga forskoti um miðbik leikhlutans. Sólrún Inga skoraði aðra þriggja stiga körfu sína í leikhlutanum og minnkaði muninn í þrjú stig undir lok leikhlutans. Njarðvík gaf síðan í á nyjan leik og það munar 9 stigum í hálfleik. Carmen er að hitna í liði Njarðvíkur og það eru afar slæmar fregnir fyrir Hauka. Carmen er stigahæsti leikmaður vallarins með 21 stig. 

10. Haukar - Njarðvík, 15:18. Njarðvík hóf leikinn með því að pressa leikmenn Hauka út um allan völl og heimamenn áttu í erfiðleikum með að leysa pressuna í upphafi leikhlutans. Njarðvík byrjaði leikinn betur og komst í 7:0. Dýrfinna braut hins vegar ísinn fyrir Hauka með þriggja stiga körfu og eftir það hefur leikurinn verið í jafnvægi. Soffía Rún hefur leikið vel fyrir Njarðvík og er stigahæsti leikmaður liðsins með 7 stig. Rósa Björk og Dýrfinna hafa hins vegar dregið vagninn í sóknarleik Hauka, en Rósa Björk hefur verið atkvæðamest með 8 stig og Dýrfinna hefur skorað 7 stig. 

1. Leikurinn er hafinn í Schenker-höllinni. 

Lið Hauka: Þóra Kristín Jónsdóttir, Sólrún Inga Gísladóttir, Stefanía Ósk Ólafsdóttir, Hanna Lára Ívarsdóttir, Rósa Björk Pétursdóttir, Magdalena Gísladóttir, Dýrfinna Arnardóttir, Karen Lilja Owolabi, Anna Lóa Óskarsdóttir, Sigrún Björg  Ólafsdóttir, Ragnheiður Björk Einarsdóttir, Thelma Rut Sigurðardóttir.  

Lið Njarðvíkur: Linda Þórdís Barðdal Róbertsdóttir, Hulda Bergsteinsdóttir, Björk Gunnarsdóttir, Soffía Rún Skúladóttir, Elísabet Sigríður Guðnadóttir, Heiða Björg Valdimarsdóttir, Karen Dögg Vilhjálmsdóttir, María Jónsdóttir, Birta Rún Gunnarsdóttir, Ása Böðvarsdóttir-Taylor, Erna Freydís Traustadóttir, Carmen Tyson-Thomas. 

0. Njarðvík er í sjötta sæti deildarinnar með 10 stig fyrir leik liðanna í kvöld, en Haukar eru aftur á móti á botni deildarinnar með sex stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert