„Ég vona bara að Snæfellingar fylli rúturnar og mæti í Höllina með okkur því það hefur alveg sannað sig að stuðningurinn skiptir gríðarlega miklu máli. Ég veit að Skallagrímsfólkið mætir með trommurnar sínar og læti, og ég held að þetta verði ótrúlega gaman.“
Þetta sagði Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði meistaraliðs Snæfells, við mbl.is fyrir leik liðsins við Skallagrím í undanúrslitum Maltbikarsins í körfubolta sem fram fer á morgun kl. 20 í Laugardalshöll. Í hinum undanúrslitaleiknum, kl. 17, mætast Keflavík og Haukar á sama stað.
„Þetta verður mjög erfið viðureign,“ sagði Gunnhildur um Vesturlandsslaginn. „Við erum búnar að eiga mjög erfiða leiki í þessum bikar; fengum fyrst Val, svo Stjörnuna og nú Skallagrím, þannig að þetta er löng leið en við ætlum okkur alla leið í úrslitaleikinn. Skallagrímur er á toppnum í deildinni eins og staðan er núna, við höfum tapað tveimur leikjum gegn þeim en unnið einn, þannig að við þurfum að spila okkar allra besta leik til að ná sigri.“
„Þetta hafa verið jafnir en sveiflukenndir leikir á milli liðanna í vetur. Ef við náum upp hraðanum og leyfum þeim ekki að hægja á okkur þá getum við þetta alveg, en þær eiga það til að hægja á leiknum okkar og hafa gert það vel. Við þurfum að bæta úr því,“ sagði Gunnhildur.
Snæfell er ríkjandi bikarmeistari, sem og reyndar Íslandsmeistari, og Gunnhildur vonast til að sigurinn í Laugardalshöll í fyrra, sem var sá fyrsti í sögu liðsins, hjálpi Snæfelli:
„Ég vona það. Við erum með marga reynda leikmenn í þessu liði í bland við unga. Breiðan og góðan hóp. Þegar komið er í Höllina þá hjálpar alltaf einhver reynsla og bikarsaga, en bikarsaga Snæfells er svo sem ekki löng. Hún er aðeins lengri en hjá Skallagrími en þar eru líka reynslumiklir leikmenn sem hafa unnið bikarinn með öðrum liðum. Það vilja allir spila úrslitaleikinn og markmiðið um að komast í hann er alveg nóg til þess að mæta trylltur í leikinn við Skallagrím.“