Höfum fengið skýr skilaboð

Finnur Freyr Stefánsson var tolleraður eftir að KR vann bikarmeistaratitilinn …
Finnur Freyr Stefánsson var tolleraður eftir að KR vann bikarmeistaratitilinn í fyrra. mbl.is/Golli

„Í íþróttunum er þetta ekkert klippt og skorið. Við trúum því hins vegar að ef við setjum saman okkar besta leik þá muni það duga okkur sama hvernig Valsararnir spila,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari meistaraliðs KR, fyrir undanúrslit Maltbikars karla á morgun.

Leikur Vals og KR hefst kl. 17 og er í Laugardalshöll líkt og leikur Þórs Þorlákshafnar og Grindavíkur sem hefst kl. 20. Úrslitaleikurinn er svo á laugardag, en þangað stefna KR-ingar þriðja árið í röð. Þeir unnu Þórsara í Höllinni í fyrra.

Valur leikur í 1. deild en hefur slegið út Hauka, Skallagrím og Snæfell á leið sinni í Höllina og Finnur þekkir liðið vel:

„Ég hef nú alltaf verið duglegur að kíkja á leiki í öllum deildum og í öllum flokkum, svo ég hef alveg séð Valsliðið áður. Ég skrapp í Kópavoginn [á sunnudag] og sá þá vinna góðan sigur á Breiðabliki og er með nóg af vídeóum af þeim. Við ættum að vera nokkuð vel undirbúnir,“ sagði Finnur.

Strákar sem eiga fullt erindi í úrvalsdeildina

„Þeir eru í fyrsta lagi vel þjálfaðir. Gústi [Ágúst Björgvinsson] er hörkuþjálfari og veit alveg hvað hann er að gera. Mín upplifun er sú að það sé ekki sérlega mikill munur á efstu liðum 1. deildar og þeim í neðri hlutanum í úrvalsdeildinni. Valur er til að mynda með [Austin Magnus] Bracey sem spilaði stóra rullu fyrir Snæfell í fyrra og árið þar áður. Þeir eru með Birgi Björn Pétursson, sem hefur verið úti í atvinnumennsku og viðloðandi A-landsliðshóp, og stráka eins og Benedikt Blöndal og Sigurð Dag Sturluson sem hafa spilað í efstu deild og kunna þetta. Þó að þetta lið sé í 1. deild í ár eru þarna strákar sem eiga fullt erindi í úrvalsdeildina og það kemur manni ekkert á óvart að þeir hafi unnið þessa leiki í keppninni hingað til,“ sagði Finnur.

Lið KR hefur breyst nokkuð síðan Finnur stýrði því til …
Lið KR hefur breyst nokkuð síðan Finnur stýrði því til sigurs á Þór Þorlákshöfn í bikarúrslitaleiknum í fyrra. mbl.is/Golli

KR-ingar lentu í vandræðum gegn 1. deildarliði fyrr í keppninni, þegar þeir sóttu Hött heim á Egilsstaði, og einnig gegn þáverandi 1. deildarliði Þórs Akureyri síðasta vetur.

„Okkar verkefni númer 1, 2 og 3 er að einbeita okkur að okkur sjálfum og gera það sem við þurfum til að spila okkar besta leik. Við höfum farið illa út úr því að mæta kærulausir til leiks og ég trúi því að við höfum fengið skýr skilaboð, bæði núna í janúar og líka síðasta vetur, um hvað getur þá gerst. Ég hef fulla trú á að við mætum klárir í þennan leik og áttum okkur á því að við þurfum að spila vel í 40 mínútur,“ sagði Finnur.

Kæruleysi að skoða ekki Þór og Grindavík

Spurður hvort ekki væri freistandi að huga jafnvel strax að úrslitaleiknum á laugardag sagði Finnur KR-inga einbeita sér að leiknum við Val, en benti þó á að:

„Óháð því hvernig leikurinn við Val fer þá væri kærulaust, hjá öllum þessum liðum, að vera ekki búinn að vinna einhverja lágmarksundirbúningsvinnu varðandi mögulega andstæðinga. Ef maður undirbýr sig ekki neitt verður manni annars refsað þegar maður kemst nógu langt. Kosturinn í þessu er að fari svo að við vinnum Val þá er tiltölulega stutt síðan við spiluðum við bæði Þór og Grindavík svo vinnan fyrir þá leiki getur skilað sér. Fókusinn er samt allur núna á leikinn við Val og fyrir okkur er ekkert eftir þann leik, fyrr en að við vinnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert