„Það er fegurðin en á sama tíma djöfullinn við þessa íþrótt, það getur mikið gerst á stuttum tíma. Við vorum komnir í góða stöðu en Grindavík á hrós skilið, þeir gáfust aldrei upp og þeir settu niður stór skot undir lokin. Sem betur fer náðum við að stoppa þá í blálokin ásamt því að við settum vítaskotin okkar niður. Ég viðurkenni að mér leið ekkert sérstaklega vel á síðustu mínútunum,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þ., eftir 106:98 sigur á Grindavík í undanúrslitum Maltbikars karla í kvöld.
Þórsarar náðu oftar en ekki fínu forskoti í leiknum en alltaf komu Grindvíkingar til baka og gerðu þetta spennandi.
„Við vorum yfir í 17 af 20 mínútum í fyrri hálfleiknum. Við viljum spila betri vörn en að fá 98 stig á okkur, það er klárt mál. Þetta var hins vegar hraður leikur með helling af vítaskotum. Við þurfum að halda betur utan um forystuna þegar við náum henni en mér er alveg sama núna þegar þetta er komið í höfn.“
Í byrjun fjórða leikhluta ætlaði allt að sjóða upp úr, er átök brutust út í kjölfarið á baráttu um boltann. Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur skaut svo á Tobin Carberry, leikmann Þórs, og sagði það hefði mátt dæma sóknarvillur á hann, oftar en einu sinni. Einar gaf lítið fyrir það, áður en hann hrósaði Carberry ásamt fleirum.
„Ég held að Ómar Sævarsson hefði mátt einbeita sér að því að spila körfubolta, hann beið eftir mönnum eins og ég veit ekki hvað og það átti ekkert skylt við leikinn og ég hefði viljað sjá dómarana taka á honum strax. Það sem kom í framhaldinu átti ekkert skylt við leikinn. Við vissum líka að þeir myndu koma og berja á okkur þegar þeir voru 10-12 stigum undir. Mér fannst við ráða við það til að byrja með en svo fóru stór skot að detta hjá þeim og allt í einu var þetta orðinn jafn leikur.“
„Margur heldur mig sig, Ólafur Ólafsson hefði mátt fá tvær sóknarvillur fyrir að ryðja mönnum úr vegi. Meira hef ég ekki um málið að segja.“
„Hann var magnaður í kvöld og mér fannst liðið allt gott. Hann sá um að skora mikið en mér fannst liðið allt gera virkilega vel. Halldór Garðar stýrði vel og gerði Tobin auðveldara fyrir, Grétar skilaði 12 stigum á fáum mínútum. Emil var frábær í fyrri hálfleik og Maciej var stöðugur allan leikinn. Ég gæti haldið áfram. Þetta var liðssigur þótt Tobin hafi skorað svona mikið.“
Þór mætir KR í úrslitaleik bikarsins, annað árið í röð, en í fyrra hafði KR betur.
„Fyrir það fyrsta erum við með öðruvísi lið en þá, við teljum okkur vera með betra og fjölhæfara lið en við vorum með í fyrra. Við erum lítið að miða okkur við leikinn í fyrra, við erum frekar að miða okkur við leikinn sem við spiluðum við þá á föstudaginn var. Við fórum vel í gegnum það í vikunni að það voru hlutir sem við þurftum að gera betur. Við þurfum samt ekki að breyta miklu, það eru litlir hlutir sem við þurfum að laga,“ sagði Einar.