Halldór sparkaði í Ómar

Ólafur Ólafsson reynir að stöðva Tobin Carberry í leiknum í …
Ólafur Ólafsson reynir að stöðva Tobin Carberry í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Ólafur Ólafsson var stigahæstur Grindvíkinga, sem máttu þola 106:98 tap gegn Þór Þ. í undanúrslitum Maltbikars karla í kvöld. Ólafur skoraði 24 stig, en því miður fyrir hann, dugði það ekki til. Eftir æsispennandi lokakafla hafði Þór betur og var Ólafur að sjálfsögðu svekktur. 

„Þetta var gríðarlega svekkjandi, sérstaklega vegna þess að við komum til baka og áttum möguleika á að vinna leikinn. Þá gerum við okkur seka um mistök og við förum að skiptast á körfum á móti þeim, það gengur ekki.“

Tobin Carberry átti stórgóðan leik fyrir Þór og skoraði hann 44 stig. Ólafur viðurkennir að hann sé góður, en segir að sama skapi að það hefði mátt dæma sóknarvillur á hann, er hann ýtti harkalega frá sér, til að búa til pláss. 

„Það hefði mátt dæma meira af sóknarvillum á Tobin Carberry. Hann er ógeðslega góður en mér fannst hann ýta svolítið mikið frá sér til að búa til skot, Lalli þurfti að láta sig detta en hann gerir ekki svoleiðis. Það verður samt að segjast að þeir voru rosalega góðir og þess vegna töpuðum við. Við lögðum upp með að hægja á Tobin, en þá voru minni spámenn sem skoruðu of mikið.“

Í byrjun fjórða leikhluta virtist allt ætla sjóða upp úr, er menn börðust um lausan bolta. Ólafur hefði viljað sjá dæmt á Halldór Garðar Hermannsson og ásakar hann Þórsarann um að sparka í Ómar Örn Sævarsson, leikmann Grindavíkur. 

„Það var barátta um boltann. Boltinn fer í gólfið og við hendum okkur allir á eftir honum, Ómar hoppar ofan á hann og fær villu. Mér fannst Halldór sparka í Ómar en dómaranir sáu það ekki. Ef þeir hefðu séð það, hefðu þeir dæmt eitthvað annað.“

Ólafur fékk fjórar villur í leiknum og var hann þess vegna hvíldur í fjórða leikhluta. Á þeim kafla náði Þór fínu forskoti. 

„Þetta voru klaufavillur sem ég var að fá á mig. Það voru villur en ég hefði getað sleppt þeim og þá sérstaklega fjórðu villunni. Mér fannst dómaranir samt ekki flauta hinum megin þegar þeir voru að gera nákvæmlega það sama,“ sagði Ólafur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert