Þór frá Þorlákshöfn og KR mætast í bikarúrslitum í körfubolta karla, annað árið í röð. Þetta varð ljóst eftir 106:98 sigur Þórs á Grindavík í mögnuðum undanúrslitaleik í kvöld.
Þórsarar fóru betur af stað og virtust þeir staðráðnir í að fá annað tækifæri til að leggja KR af velli í bikarúrslitum, en KR hafði betur gegn Þór Þ. í bikarúrslitum í fyrra, 95:79.
Þór komst fljótlega í 11:2 og var sóknarleikur Grindvíkinga í molum í upphafi leiks. Eftir því sem leið á fyrsta leikhluta komst Grindavík meira inn í leikinn, staðan var 24:23, Þór í vil eftir fyrsta leikhluta. Ólafur Ólafsson og Dagur Kár Jónsson áttu stóran þátt í að Grindavík komst yfir um tíma í öðrum leikhluta. Þór kom þá með fínan kafla og komst 43:36.
Sem fyrr, komst Grindavík þó aftur inn í leikinn áður en leikhlutinn varð allur. Staðan í hálfleik var því 46:44. Þórsarar voru mun betri aðilinn í þriðja leikhluta og fundu Grindvíkingar mikið fyrir fjarveru Ólafs Ólafssonar og Dags Kár sem báðir fengu hvíld, enda með fjórar villur á bakinu. Staðan fyrir fjórða leikhlutann var 76:62, Þór Þ. í vil og virtist fátt geta komið í veg fyrir að þeir fengju annað tækifæri gegn KR í bikarúrslitaleik.
Grindavík byrjaði fjórða leikhlutann af miklum krafti og var munurinn fljótt kominn í 79:72. Sem fyrr gafst Grindavík ekki upp og eftir mjög góðan kafla þeirra, var staðan 95:95 og um ein mínúta var til leiksloka. Þá skoraði Tobin Carberry þriggja stiga körfu fyrir Þór en strax í næstu sókn jafnaði Lewis Clinch með þriggja stiga körfu og var æsispenna fyrir lokamínútuna. Maciej Baginski skoraði fyrir Þór í næstu sókn og kom þeim í 100:98. Í kjölfarið missti Þorsteinn Finnbogason boltann og var Þór með tveggja stiga forskot og með boltann þegar 20 sekúndur voru til leiksloka. Tobin Carberry kom þeim svo í 102:98 úr tveim vítum og nokkrum sekúndum seinna 104:98, einnig úr vítum, þá voru 12 sekúndur til leiksloka og úrslitin í raun ráðin.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is
40. Leik lokið. Þvílíkur lokakafli.
40. (104:98) Grindvíkingar tapa boltanum og Carberry skorar aftur úr tveim vítum. 12 sekúndur eftir.
40. (102:98) Carberry skorar úr tveim vítum. 17 sekúndur eftir.
40. (100:98) Maciej kemur Þór aftur yfir áður en Þorsteinn missir boltann fyrir Grindavík. Þór eru með boltann og 20 sekúndur eftir.
40. (98:98) Clinch jafnar 95:95 með þriggja stiga körfu, Tobin Carberry kemur Þór svo í 98:95 með þrist og viti menn, Clinch skorar bara aftur úr þriggja stiga körfu og jafnar. Þvílíkur leikur.
38. (93:89) Halldór fær sína fimmtu villu og þar með útilokun og fer Dagur Kár á línuna. Dagur brennir af báðum skotum en Ólafur Ólafsson tekur frákastið, skorar og fær víti, sem hann skorar úr.
36. (90:82) Átta stiga munur og fjórar mínútur eftir. Grindavík hefur enn tíma til að snúa þessu við.
35. (87:75) Ragnar Örn setur niður þriggja stiga körfu og kemur muninum í 12 stig. Grindavík þarf að sýna allar sínar bestu hliðar til að bjarga úrslitaleiknum úr því sem komið er.
32. (79:72) Grindvíkingar eru byrjaðir að sækja í sig veðrið og munar aðeins sjö stigum á liðunum. Munurinn var kominn upp í 14 stig um tíma.
31. (76:62) Dagur Kár nær í villu og menn eru eitthvað ósáttir hver við annan og er allt að sjóða upp úr. Dómaranir þurfa að stöðva leikmenn í að hreinlega fara að slást. Ómar Örn ætlaði að ráðast á leikmann Þórsara en sem betur fer róast þetta niður að lokum.
30. Þriðja leikhluta lokið. (76:62) Þórsarar kláruðu leikhlutann virkilega vel og eru staðan orðin vænleg fyrir síðasta leikhlutann.
29. (72:62) Grétar skorar og nælir í víti sem hann nýtir svo. Munurinn er orðinn tíu stig og tveir af lykilmönnum Grindavíkur er komnir með fjórar villur. Þetta lítur vel út fyrir Þór.
28. (67:62) Dagur Kár fær sína fjórðu villu er hann keyrir Emil Karel niður. Það gæti reynst dýrkeypt. Ólafur Ólafs er einnig með fjórar villur.
27. (65:59) Clinch er með æðislega vörn er Ólafur Helgi er að fara að leggja boltann ofan í og ver skotið hans. Ólafur er fljótur að svara með að stela boltanum til baka og skora.
24. (57:49) Carberry skorar, fær víti og skorar úr því. Enn eru Þórsarar að byrja leikhlutana betur.
22. (52:48) Ragnar Örn kemur Þórsurum fjórum stigum yfir með góðri körfu. Dagur Kár liggur eftir meiddur, eftir árekstur við Ragnar og var karfan ansi auðveld, þar sem Dagur var ekki til staðar að stoppa hann. Dagur er ekki sérstaklega sáttur en dómaranir sáu ekkert athugavert við þetta.
20. Hálfleikur. (46:44) Þórsarar byrjuðu báða leikhlutana fram að þessu mun betur en Grindvíkingar, komu með fín áhlaup og sáu til þess að munurinn er ekki stór í hálfleik. Tobin Carberry er búinn að vera manna bestur hjá Þór en Emil Karel og Maciej eru ekki langt á eftir.
Hjá Grindavík er Dagur Kár búinn að vera mjög sprækur og skorað 12 stig og Ólafur Ólafursson er með 11. Það er hins vegar ákveðið áhyggjuefni hjá Grindavík að Dagur er með þrjár villur.
17. (43:36) Emil Karel, Carberry og Maciej eru allir komnir með tíu stig eða meira hjá Þór. Liðin skiptast á góðum köflum.
15. (37:34) Jóhann tekur leikhlé eftir að Emil Karel skoraði þriggja stiga körfu og kom Þór þrem stigum yfir. Þriggja stiga nýting Þórsara er búin að vera mjög góð.
14. (32:30) Þorsteinn brýtur illa á Carberry og fær tæknivillu að launum. Carberry nýtir annað vítið áður en Maciej bætti við tveim stigum og kom Þór í tveggja stiga forystu.
12. (28:28) Grindvíkingar byrja annan leikhluta á að jafna leikinn með þriggja stiga körfu Dags Kár.
10. Fyrsta leikhluta lokið. (24:23) Grindvíkingar kláruðu 1. leikhluta af miklum krafti eftir hæga byrjun. Ingvi Þór skoraði þriggja stiga áður en Ólafur skoraði tvö stig í viðbót og er munurinn allt í einu orðinn eitt stig. Dagur Kár reyndi svo þrist í blálok leikhlutans en það geigaði.
8. (24:16) Hraður og skemmtilegur leikur núna. Ólafur setti niður þrist en Grétar Ingi er búinn að koma með flotta inkomu og skora síðustu fjögur stig Þórs, eftir stoðsendingar Carberry.
7. (20:9) Annar þristur Maciej í leiknum og er munurinn kominn upp í 11 stig.
7. (17:9) Sóknarleikurinn er byrjaður að rúlla mikið betur hjá Grindvíkingum. Dagur Kár er allur í öllu hjá þeim.
5. (13:4) Loksins fer eitthvað ofan í hjá Grindavík. Ólafur skoraði en Emil var fljótur að svara hinum megin.
5. (11:2) Enn ná Grindvíkingar ekki að skora. Jóhann Þór, þjálfari Grindavíkur, er kominn með nóg og tekur leikhlé, skiljanlega.
4. (11:2) Það gengur ekkert í sókninni hjá Grindavík, eins og tvö stig á fjórum mínútum gefa til kynna. Maciej setti svo þrist í andlitið á þeim.
2. (6:2) Fín byrjun hjá Þór. Emil Karel skoraði úr þrist, áður en Carberry setti niður eitt víti.
1. (2:2) Carberry skoraði fyrstu stig leiksins en Dagur Kár setti niður tvö víti hinum megin.
1. Leikurinn er hafinn!
Byrjunarlið Þórs: Emil karel, Ragnar Örn, Carberry, Ólafur Helgi, Maciej
Byrjunarlið Grindavíkur: Lewis Clinch, Þorsteinn, Þorleifur, Ólafur, Dagur Kár.
0. Þór Þ: Benjamín Þorri Benjamínsson, Baldur Þór Ragnarsson, Emil Karel Emilsson, Ragnar Örn Bragason, Halldór Garðar Hermannsson, Magnús Breki Þórðarson, Styrmir Snær Þrastarson, Tobin Carberry, Davíð Arnar Ágústsson, Grétar Ingi Erlendsson, Þorsteinn Már Ragnarsson, Ólafur Helgi Jónsson, Maciej Stanislav Baginski. Þjálfari Þórs er Einar Árni Jóhansson.
Grindavík: Hamid Dicko, Dagur Kár Jónsson, Lewis Clinch Jr., Ómar Örn Sævarsson, Kristófer Breki Gylfason, Þorsteinn Finnbogason, Jens Valgeir Óskarsson, Magnús Már Ellertsson, Ingvi Þór Guðmundsson, Þorleifur Ólafsson, Ólafur Ólafsson, Nökkvi Már Nökkvason. Þjálfari Grindavíkur er Jóhann Þór Ólafsson.
0. Lewis Clinch Jr. er með 20.9 stig í leik hjá Grindavík, en gamla kempan Ómar Örn Sævarsson er duglegastur í fráköstunum.
0. Tobin Carberry er búinn að vera algjör yfirburðamaður í liði Þórs. Hann er stigahæstur, með flestar stoðsendingar og flest fráköstin af öllum að meðaltali í vetur. Carberry er með rúm 26 stig í leik.
0. Grindavík er búið að vinna tvo síðustu leiki sína, gegn ÍR og Þór Ak. Þór Þ. tapaði fyrir KR í síðustu umferð en þar á undan komu fimm sigurleikir í röð.
0. Liðin hafa mæst í tvígang á leiktíðinni. Í bæði skiptin hefur heimaliðið haft betur. Grindavík vann í Grindavík, 73:71 á meðan Þór Þ. vann 96:85 í Þorlákshöfn. Nú er bara spurning hvort liðið getur gert Laugardalshöll að heimavelli.
0. Eins og áður segir, komst Þór Þ. í úrslitaleikinn gegn KR á síðasta ári og gætum við því fengið endurtekningu á úrslitaleiknum frá því í fyrra. Þar eiga Þórsarar harma að hefna.
0. Grindavík hefur fimm sinnum orðið bikarmeistari, síðast fyrir þrem árum síðan. Þór Þ. hefur hins vegar aldrei orðið bikarmeistari.