Keflavík vann Skallagrím í dag í úrslitaleik Maltbikars kvenna í körfubolta í spennuleik, 65:62. Skallagrímur hafði færi á að jafna metin, með boltann þegar 24 sekúndur voru eftir, en tókst ekki að nýta lokasókn sína.
Þetta er 14 bikarmeistaratitill Keflavíkur en sá fyrsti í meistaraflokki fyrir marga unga leikmenn liðsins. Skallagrímur fékk silfurverðlaunin úr þessum fyrsta bikarúrslitaleik í sögu félagsins.
Keflvíkingar voru mun grimmari í upphafi leiks og komust í 11:2 á meðan að Skallagrímskonur virtust þurfa að ná áttum, í fyrsta bikaúrslitaleik félagsins. Keflavík hélt forystunni nánast allan leikinn en Skallagrímur var aldrei langt undan og náði stundum að jafna metin, án þess hins vegar að komast yfir.
Ariana Moorer skoraði 17 stig í fyrsta leihkluta fyrir Keflavík en þegar Skallagrímur náði að stöðva hana opnuðust færi fyrir aðrar í Keflavíkurliðinu. Erna Hákonardóttir fyrirliði var afar örugg við þriggja stiga línuna og skoraði 12 stig, og hin 16 ára gamla Birna Valgerður Benónísdóttir tók einnig oft af skarið þegar spennan var hvað mest og skoraði 11 stig.
Hjá Skallagrími var Tavely Tillman stigahæst með 26 stig en henni tókst ekki að finna færi í lokasókn liðsins þrátt fyrir að reyna hvað hún gat.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:
Keflavík - Skallagrímur, 65:62
(22:14 - 37:34 - 52:46 - 65:62)
Leik lokið! (65:62) Tillman reyndi og reyndi að finna skotfæri en fór svo upp í erfitt skot sem var stöðvað. Keflavík náði boltanum og Skallagrímur náði að brjóta þegar aðeins 0,3 sekúndur voru eftir. Moorer setti niður fyrra víti sitt. Keflavík er bikarmeistari!
40. (64:62) Skallagrímur tekur annað leikhlé, með 16 sekúndur eftir af leiktímanum. Tillman var nálægt því að missa boltann en fékk að lokum innkast.
40. (64:62) Moorer sótti að körfu Skallagríms en setti skotið ekki niður. Hún náði hins vegar frákastinu sjálf (!) og skoraði úr báðum vítunum. 25 sekúndur eftir og Skallagrímur tekur leihklé.
39. (62:62) Skallagrímur þurfti þrjú stig og þá skilaði Tillman fallegri körfu þó brotið væri á henni, og setti vítið niður. Staðan er jöfn!
38. (62:59) Jóhanna Björk fær sér sæti hjá Kristrúnu eftir að hafa fengið sína fimmtu villu, fyrir brot á Moorer.
38. (62:59) Rétt tæpar þrjár mínútur eftir þegar Sigrún setur niður afar erfitt skot og minnkar muninn í þrjú stig. Keflavík tekur leihklé. Nú er allt á suðupunkti.
34. (57:54) Erna með fjórða þristinn sinn fyrir Keflavík sem heldur enn forskoti, en það er naumt. Fanney Lind var fljót að svara.
33. (54:50) Tillman örugg á vítalínunni fyrir Skallagrím og skorar tvisvar tvö stig þaðan með skömmu millibili. Hún er komin með 23 stig.
Leikhluta 3 lokið. (52:46) Keflvíkingar náðu einum þremur sóknarfráköstum í síðustu sókn sinni og að lokum kom Birna Valgerður boltanum í körfuna, og jók muninn í sex stig fyrir lokafjórðunginn.
29. (48:46) Skallagrímur þarf að spjara sig án Kristrúnar Sigurjónsdóttur sem var að fá sína fimmtu villu, við mikla óánægju Borgnesinga.
27. (48:46) Tillman með tvö tækifæri til að jafna metin fyrir Skallagrím en það tókst ekki. Keflavík er tveimur stigum yfir.
25. (47:41) Erna með þriðja þristinn sinn úr þriðju tilrauninni. Fyrirliðinn fer fram með góðu fordæmi fyrir Keflavík sem heldur frumkvæðinu í þessum leik. Sigrún Sjöfn og Kristrún eru einar komnar með þrjár villur í leiknum, eða þar til akkúrat núna að Kristrún var að fá fjórðu villuna sína og er tekin af velli.
22. (40:37) Guðrún Ósk jafnaði metin með þriggja stiga körfu en Erna svaraði að bragði fyrir Keflavík.
21. (37:34) Boltinn kominn af stað á nýjan leik og Skallagrímur er í sókn.
Hálfleikur. (37:34) Þessi leikur stefnir í að verða sá spennuleikur sem vonir stóðu til. Skallagrímur skoraði sex fyrstu stig leikhlutans en tókst aldrei að jafna metin eftir góðan fyrsta leikhluta. Munurinn er hins vegar aðeins þrjú stig í hálfleik. Ariana Moorer er stigahæst hjá Keflavík með 17 stig, öll úr fyrsta leikhluta, en Birna Valgerður Benónýsdóttir átti góða innkomu í öðrum leikhluta og er með sjö stig. Hjá Skallagrími er Tavelyn Tillman stigahæst með 12 stig og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir næst með 7.
20. (37:34) Kristrún fékk greiða leið að körfunni hjá Keflavík og nýtti sér það, og minnkað muninn í þrjú stig. Keflavík tók leikhlé þegar 33 sekúndur eru eftir af fyrri hálfleik. Allt í járnum í þessum úrslitaleik og stemningin í stúkunni eftir því!
16.(33:25) Irena Sól og Katla Rún með tvo þrista í röð fyrir Keflavík en Tillman svaraði í millitíðinni. Keflavík er áfram með frumkvæðið í þessum leik þó að Moorer skori ekki þessa stundina.
14. (27:20) Hin 16 ára Birna Valgerður var að setja niður víti, vinna boltann á hinum enda vallarins og skora svo góða körfu fyrir Keflavík.
13. (22:20) Fanney Lind Thomas er langt komin með að jafna þennan leik með tveimur góðum þristum í röð. Moorer hefur verið utan vallar í þessum leikhluta en fer nú að koma inn á hjá Keflavík.
Leikhluta 1 lokið. (22:14) Keflavík byrjaði þennan leik af miklum krafti og nýtur enn góðs af því, með 8 stiga forskot eftir fyrsta fjórðung. Ariana Moorer er komin með heil 17 stig, sem hjá mörgum þætti gott í heilum leik.
10. (22:14) Tillman var að skora fyrstu stig sín fyrir Skallagrím, með þriggja stiga körfu, og bætti við tveimur strax í kjölfarið. Moorer er komin með 17 fyrir Keflavík. Það er auðvitað alveg eðlilegt!
7. (20:7) Erna með fallegan þrist fyrir Keflavík og Moorer ætlaði að fylgja því eftir en steig aðeins á línuna. Munurinn þrettán stig.
5. (15:7) Moorer skoraði fyrstu 13 stig Keflavíkur! Salbjörg Ragna var svo að bæta við körfu en Ragnheiður svaraði fyrir Skallagrím.
4. (11:2) Skallagrímur tekur leikhlé eftir skelfilega byrjun á leiknum. Taugarnar virðast of þandar. Keflvíkingar eru hins vegar heldur betur til í slaginn, stela boltanum við hvert tækifæri og nýta hraða sinn. Ariana Moorer er komin með öll þeirra stig, 11 talsins.
3. (11:2) Keflvíkingar eru mun ákveðnari þessar fyrstu mínútur á meðan að Borgnesingar virðast þurfa að ná áttum. Skallagrímskonur eru í þrígang búnar að kasta boltanum afar klaufalega frá sér í vörninni.
1. LEIKUR HAFINN! Nú er þetta byrjað. Skallagrímur hefur fyrstu sókn.
Byrjunarlið Keflavíkur: Moorer, Salbjörg Ragna, Thelma Dís, Emelía Ósk og Erna.
Byrjunarlið Skallagríms: Guðrún Ósk, Ragnheiður, Sigrún Sjöfn, Jóhanna Björk, Tillman.
Keflavík: Irena Sól Jónsdóttir, Kamilla Sól Viktorsdóttir, Ariana Moorer, Katla Rún Garðarsdóttir, Þóranna Kika Hodge-Carr, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir, Emelía Ósk Gunnarsdóttir, Elsa Albertsdóttir, Svanhvít Ósk Snorradóttir, Erna Hákonardóttir, Birna Valgerður Benónýsdóttir.
Skallagrímur: Guðrún Ósk Ámundadóttir, Gunnhildur Lind Hansdóttir, Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir, Ragnheiður Benónísdóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, Gunnfríður Ólafsdóttir, Arna Hrönn Ámundadóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir, Fanney Lind Thomas, Jóhanna Björk Sveinsdóttir, Tavelyn Tillman.
--------------------------------
0. Heiðursgestir á þessum bikarúrslitaleik eru Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, og Guðmundur Sigurðsson sem titlaður er upphafsmaður/faðir körfuboltans í Borgarnesi. Frá KKÍ eru heiðursgestir frumkvöðlarnir Þórdís Anna Kristjánsdóttir og Kolbrún Jónsdóttir, en þær voru fyrstar kvenna til að gegna stöðu formanns (Þórdís Anna) og framkvæmdastjóra KKÍ (Kolbrún).
0. Spánverjinn Manuel Rodriguez stýrir Skallagrími en hann tók við liðinu fyrir síðustu leiktíð og stýrði því upp í úrvalsdeild. Þar er hann svo með liðið á toppnum, auk þess að vera kominn með það í bikarúrslitaleikinn. Rodriguez nýtur meðal annars aðstoðar Darrell Flake, leikmanns karlaliðs félagsins.
0. Skallagrímur vann tveggja stiga sigur á Keflavík fyrir hálfum mánuði, í Dominos-deildinni, eftir að Keflavík hafði unnið fyrstu tvær viðureignir liðanna í vetur. Skallagrímur er á toppi deildarinnar, tveimur stigum fyrir ofan Keflavík.
0. Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, hefur þegar gert kvennalið Njarðvíkur og Grindavíkur að bikarmeistara, sem og karlalið Grindavíkur. Hann segist ekki vera með neina leyniuppskrift að bikarmeistaratitli, en virðist svo sannarlega kunna vel við sig í Höllinni.
0. Þó að Skallagrímur hafi aldrei orðið bikarmeistari eru leikmenn liðsins með meiri reynslu en Keflvíkingar í að landa bikarmeistaratitlinum. Systurnar Guðrún Ósk og Sigrún Sjöfn, Kristrún Sigurjónsdóttir og Jóhanna Björk Sveinsdóttir, hafa til að mynda allar orðið bikarmeistarar. Guðrún hefur afrekað það oftast eða alls fimm sinnum með Haukum og KR. Ég ræddi við hana í byrjun vikunnar þar sem hún sagði að það yrði óneitanlega afar sérstakt að vinna verðlaun fyrir uppeldisfélag sitt og nú er ljóst að hún fer að minnsta kosti með silfurverðlaun heim í Borgarnes.
0. Skallagrímskonur eru búnar að hita upp í rúmar 10 mínútur hérna en Keflvíkingar komu í hús klukkutíma fyrir leik og eru enn inni í búningsklefa.
0. Keflavík lék síðast til úrslita fyrir tveimur árum en tapaði þá fyrir Grindavík, 68:61. Sverrir Þór Sverrisson, sem stýrir Keflavík í dag, var þá þjálfari Grindavíkur. Keflavík varð síðast bikarmeistari árið 2011 og hefur unnið titilinn alls þrisvar frá og með árinu 2000.
0. Góðan dag kæru lesendur! Hér verður bein textalýsing frá bikarúrslitaleik Keflavíkur og Skallagríms. Bætir sigursælasta lið keppninnar við sínum 14. bikarmeistaratitli eða landar Skallagrímur sínum fyrsta?