„Manni líður nú ekkert vel með tap en svona er þetta bara. Þetta var hörkuleikur og sigurinn gat dottið hvoru megin sem var,“ sagði Guðrún Ósk Ámundadóttir, fyrirliði Skallagríms, eftir 65:62-tap liðsins gegn Keflavík í úrslitaleik Maltbikarsins í körfubolta í Laugardalshöll í dag.
„Við byrjuðum mjög illa og það gaf þeim forskotið í leiknum. Þær voru yfir allan leikinn og það tekur á að vera alltaf að elta. Við vorum að koma úr erfiðum leik á miðvikudaginn við Snæfell og fengum annan erfiðan leik núna,“ sagði Guðrún.
„Við komum vel til baka með þvílíkri orku og baráttu og það vantaði bara örlítið til að við næðum að stela sigrinum. Við vorum komnar í „bónus“ í lokasókninni og það hefði alveg verið hægt að dæma villu og tvö vítaskot þarna, en í staðinn var ekkert dæmt. Þessi dómur í lokin var samt ekki það sem tapaði leiknum. Við fengum fín skot sem fóru ekki ofan í,“ sagði Guðrún.
Guðrún var að vinna til verðlauna með uppeldisfélagi sínu í fyrsta sinn, þó að auðvitað hefði hún frekar kosið gullverðlaun eins og hún hefur unnið áður með KR og Haukum.
„Þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins sem lið keppir hérna í Höllinni og við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir að fara héðan með silfur. Ég tel þetta mjög fínan árangur og ég held að það hafi enginn búist við því að við yrðum í lokaleiknum hérna,“ sagði Guðrún, sem vill gjarnan færa stuðningsmönnum Skallagríms fleiri úrslitaleiki:
„Við eigum lang-, langbestu áhorfendurna og það sýndu þeir hérna í dag.“