„Ég saknaði þess bara svo mikið að spila,“ segir Helena Sverrisdóttir, fremsta körfuboltakona landsins, sem aðeins rúmum fimm vikum eftir að hafa fætt sína fyrstu dóttur spilaði leik í Dominos-deildinni í fyrrakvöld.
Leikurinn tapaðist reyndar, en Helena var hæstánægð með að geta snúið svo fljótt aftur á völlinn þar sem hún skoraði heil 16 stig og tók 7 fráköst, á 20 mínútum.
„Mér líður mjög vel og er bara mun hressari en ég hafði ímyndað mér. Ég er búin að vera að æfa síðustu vikurnar og hef verið að styrkja mig, og þó að ég eigi langt í land fannst mér ég komin á þann stað að geta farið að spila,“ segir Helena.
Hin eins mánaðar gamla dóttir Helenu, sem virtist ýmsum forvitnilegum athugasemdum vilja bæta við viðtalið, var aðeins 17 daga gömul þegar Helena fór á sína fyrstu æfingu eftir fæðinguna. Og nú er þessi frábæra körfuboltakona byrjuð að spila á ný og hún stefnir á að spila einnig með Haukum í lokaumferð Dominos-deildarinnar í kvöld, sem og með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í lok maí.
„Staðan hjá Haukum er þannig að stelpurnar eru búnar að standa sig frábærlega og tryggja sæti í deildinni á næstu leiktíð. Þessir síðustu leikir skipta því þannig séð ekki máli. Ég spilaði þennan leik því bara vegna þess að ég saknaði körfubolta svo mikið. Körfubolti hefur verið stór hluti af mínu lífi síðan ég var fimm ára og við Ingvar [Guðjónsson] þjálfari ákváðum saman að ég tæki bara slaginn. Ég er búin að vera að æfa og það var gott að fá aftur forsmekkinn af því að spila, fyrst að ég var svona hress,“ segir Helena.
Sjá allt viðtalið við Helenu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag