Ragnar Ágústsson og Hákon Ingi Rafnsson,
Magnús Már Traustason var stigahæstur Keflvíkinga í ósigrinum fyrir Tindastóli, 107:80, í þriðja leik liðanna í einvígi átta liða úrslita um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik í kvöld. Það stóð ekki á svari þegar hann var spurður hvað hafi klikkað í kvöld.
„Eiginlega bara allt. Þeir skoruðu einhver 60 stig í fyrri hálfleik og tóku fullt af sóknarfráköstum,“ sagði Magnús Már við mbl.is, en Keflvíkingar geta tryggt sæti sitt í undanúrslitum á heimavelli á föstudagskvöld.
„Við fáum annan séns til að vinna þetta þá og ég held að við séum líklegri heima,“ sagði Magnús Már.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, segir að liðið þurfi að sýna allt aðra frammistöðu á föstudagskvöldið en boðið var upp á á Króknum í kvöld.
„Við þurfum bara fyrst og fremst að mæta til leiks eins og við gerðum í hinum tveimur leikjunum. Það vantaði allan „fighting spirit“ í okkur í dag,“ sagði Friðrik Ingi.
Daði Lár Jónsson meiddist í leiknum, en óvíst er hvernig staðan á honum er.
„Já það á enn þá eftir að koma í ljós og ég veit ekki hvernig staðan er. En við þurfum á öllum leikmönnum okkar að halda,“ sagði Friðrik Ingi við mbl.is.