Hungrið kemur 150% til baka

Snæfellingar hafa verið í því að fagna titlum síðustu ár, …
Snæfellingar hafa verið í því að fagna titlum síðustu ár, meðal annars Íslandsmeistaratitlinum þrjú ár í röð. mbl.is/Eggert

Berglind Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í Snæfelli hafa fagnað fjölda titla á síðustu árum, eða alls sjö stórum titlum. Liðið hefur orðið Íslandsmeistari þrjú síðustu ár og varð deildarmeistari á dögunum.

Í kvöld hefst úrslitakeppnin í Dominos-deild kvenna í körfubolta en í undanúrslitunum mætir Snæfell Stjörnunni, sem er í fyrsta sinn í úrslitakeppni. Fyrsti leikur liðanna er í Stykkishólmi í kvöld kl. 19.15.

„Reynslan mun klárlega spila með okkur. Við höfum haldið svipuðu liði síðustu ár þó að vissulega hafi orðið einhverjar breytingar. Þegar kemur í svona stóra og mikilvæga leiki held ég að reynslan muni hafa mikið að segja,“ sagði Berglind við mbl.is á fréttamannafundi á föstudag. Sigursæla síðustu ár hefur ekki slökkt hungrið í leikmönnum Snæfells:

„Þegar maður kemur í úrslitakeppni þá gleymir maður því bara að maður hafi unnið síðustu þrjú ár. Þetta er langskemmtilegasti hluti tímabilsins og þó að yfir tímabilið finni maður kannski fyrir smávægilegri seddutilfinningu einhvern tímann, þá kemur hungrið 150% til baka þegar í úrslitakeppnina er komið. Þá þýðir ekkert annað en að gefa allt í þetta,“ sagði Berglind.

Heimavöllurinn hjálpar mikið

Í vetur hafa Stjarnan og Snæfell mæst fjórum sinnum og hefur Snæfell unnið þrjá leiki en Stjarnan einn:

„Þær eru með mjög sterka leikmenn og reynda sömuleiðis. Þarna er til að mynda Ragna Margrét [Brynjarsdóttir] sem spilað hefur með landsliðinu og í úrslitum með öðrum liðum. Þær eru með mjög góðan kjarna. Við komum sem deildarmeistarar inn í þessa rimmu og það mun hjálpa okkur mikið að vera með heimavallarréttinn, en þetta er úrslitakeppnin og það getur allt gerst. Ef við hins vegar höldum okkar leikskipulagi og áætlun þá held ég að við náum góðum úrslitum,“ sagði Berglind.

Í undanúrslitum Dominos-deildar kvenna mætast Snæfell og Stjarnan annars vegar, og Keflavík og Skallagrímur hins vegar. Rimma Keflavíkur og Skallagríms hefst annað kvöld í Keflavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert