„Snæfell er langsigurstranglegast þessara liða. Liðið er með alla reynsluna í heiminum, hefur orðið Íslandsmeistari þrjú ár í röð og er að miklu leyti með sama mannskap og hefur verið að vinna þetta undanfarin ár,“ segir Haukakonan Helena Sverrisdóttir. Morgunblaðið fékk Helenu til að spá í spilin fyrir úrslitakeppni Dominos-deildar kvenna í körfubolta sem hefst í kvöld.
Deildarmeistarar Snæfells mæta Stjörnunni í fyrsta leik í Stykkishólmi í kvöld. Annað kvöld mætast svo bikarmeistarar Keflavíkur og Skallagrímur í sínum fyrsta leik í Keflavík. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitin.
Eins og Helena benti á hefur Snæfell titil að verja. Liðið hefur orðið Íslandsmeistari þrjú ár í röð, en það eru jafnframt þrír fyrstu Íslandsmeistaratitlarnir í sögu liðsins. Liðið hefur sömuleiðis orðið deildarmeistari í þrjú af síðustu fjórum skiptum, og bikarmeistari 2016, en alla titlana hefur þetta lið úr 1.200 manna bæ á Snæfellsnesi unnið undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar.
Á meðan Stjarnan hefur verið besta lið landsins síðustu ár var lið Stjörnunnar stofnað árið 2009 og komst í fyrsta sinn í úrvalsdeild árið 2015. Þetta er því aðeins annað tímabil liðsins í úrvalsdeild, en það var í fallbaráttu í fyrra.
„Mér finnst hálfótrúlegt að Stjarnan sé þarna í undanúrslitum en það er held ég nánast allt Danielle Rodriguez að þakka. Þær eru mjög heppnar með sinn útlending og ef hinar stelpurnar í liðinu geta sett sín opnu skot þá geta þær alveg strítt Snæfelli og tekið einn sigur,“ segir Helena.
Rodriguez hefur skorað 23,4 stig að meðaltali í vetur, tekið 9,6 fráköst og átt 5,9 stoðsendingar. „Þær eru með þennan frábæra útlending sem gerir bara allt fyrir þær. Hún skorar, tekur fráköstin, gefur stoðsendingarnar, og það er bara mjög erfitt að stoppa hana því hún er það góð. Þær hafa tapað alls konar leikjum en vinna leikina þegar stelpurnar í kringum hana setja niður skotin sín,“ segir Helena.
Sjá allt viðtalið við Helenu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag